Um Námsgagnastofnun

 

Námsgagnastofnun gefur út margs konar námsgögn fyrir grunnskólann, kennslubækur, vinnubækur, kennsluleiðbeiningar, hljóðbækur, kennsluforrit, fræðslumyndir og handbækur. Á annað hundrað höfundar texta og mynda vinna árlega að námsgagnagerð fyrir Námsgagnastofnun. Alls koma út 300-350 titlar árlega, þar af um 80-90 nýir titlar. Í nokkrum tilvikum henta námsgögnin einnig fyrir framhaldsskólann, einkum fræðslumyndir og kennsluforrit. Tillögur um hvað skuli gefið út koma ýmist frá ritstjórum stofnunarinnar, starfshópum sem fjalla um ákveðnar námsgreinar eða námssvið, kennurum eða öðrum sérfræðingum. Einnig berast oft fullbúin handrit til stofnunarinnar með ósk um útgáfu. Loks leiða kannanir, sem stofnunin gerir meðal kennara, gjarnan til þess að ákvarðanir eru teknar um útgáfu á efni. Endanlegar ákvarðanir eru teknar í námsgagnastjórn.

Dreifing

Dreifing til skólanna fer fram hjá afgreiðsludeild í Brautarholti 6. Stofnunin dreifir 650-700 þúsund eintökum af ýmiss konar námsefni til um 42 þúsund grunnskólanemenda á hverju ári en það samsvarar u.þ.b. 15 titlum til hvers nemanda að meðaltali. Réttur skólanna til að fá námsefni frá Námsgagnastofnun byggist á svokölluðum úthlutunarkvóta sem ákveðinn er árlega af námsgagnastjórn.

Framleiðsla

Framleiðsla á námsefni er í flestum tilvikum boðin út og eru verktakar oftast um 20 talsins árlega. Starfsmenn framleiðslusviðs sjá um hönnun og undirbúning verka fyrir prentvinnslu og annast eftirlit með þessum þáttum hjá verktökum.