Christian Krohg

Christian Krohg ólst upp í Ósló eða Kristjaníu eins og borgin hét þá. Krohg vildi verða málari en hlýddi vilja föður síns og varð lögfræðingur. Faðir hans dó þegar Krohg var 22 ára. Krohg ákvað þá að verða málari og stundaði nám við listaháskólana í Karlsruhe og Berlín í Þýskalandi.

Í Berlín veitti hann óréttlætinu í þjóðfélaginu athygli og lét sér annt um þá sem þjáðust af fátækt og einmanaleika. Krohg vildi gera upp við þetta í myndum sínum. Hann taldi að listin ætti að vekja fólk og gera því grein fyrir þjóðfélagsvandamálunum.

Í málverkum sínum sýndi hann neyð og óréttlæti á þann hátt að áhorfandinn varð að taka afstöðu. Krohg taldi að listin ætti ekki bara að vera falleg heldur sönn og sýna hlutina eins og þeir væru í raun og veru. Í málverkunum reyndi Krohg að lýsa umhverfi sínu á eins raunsæjan hátt og mögulegt var. Fólk er oftast fremst á myndunum til að áhorfandinn sé í sem mestri nálægð við það.

Á níunda tug aldarinnar málaði Krohg fjölda mynda sem sýndu hvernig saumakonur þræluðu sér út til að hafa í sig og á. Hann vildi opna augu fólks fyrir þjóðfélagslegu óréttlæti og sýna hvað neyðin og kúgunin væri mikil. Krohg notaði gjarnan breiðar og hraðar pensilstrokur með ferskum og skýrum litum. Málverk Krohgs teljast til þess tímabils í listasögunni sem kallast raunsæi .