Vincent van Gogh 1853-1890

Vincent van Gogh var hollenskur málari. Hann var uppi í lok 19. aldar. Faðir hans var prestur og það ætlaði Vincent líka að verða. Þess vegna var hann um hríð farandpredikari í Hollandi og meðal námuverkamanna í Belgíu.

Van Gogh hafði alltaf haft áhuga á myndlist og þegar hann var 27 ára sneri hann sér að henni. Hann flutti til Parísar þar sem margir listamenn bjuggu. Árið 1888 fluttist van Gogh búferlum til Arles. Hann vonaðist til að fleiri listamenn frá París fylgdu í kjölfarið og að þeir gætu haft sameiginlegar vinnustofur.

Málarinn Gauguin var vinur van Goghs og kom í heimsókn. En hann dvaldi þar ekki lengi. Eftir eitt rifrildið milli þeirra skar van Gogh hluta af öðru eyranu á sér og Gauguin flúði til Parísar!

Van Gogh átti við geðræn vandamál að stríða og hann fyrirfór sér aðeins 37 ára gamall. Á meðan van Gogh bjó í París kynntist hann málurum sem voru kallaðir impressjónistar.

Þeir máluðu liti og birtu náttúrunnar. Van Gogh fékk einnig áhuga á því. Hann hafði sérstakan áhuga á því hvernig frumlitir og andstæðulitir orkuðu hverjir á aðra. Þegar hann fluttist til Arles notaði hann það sem hann hafði lært af impressjónistunum og þróaði sinn eigin stíl með sterkum litum og breiðum kraftmiklum strokum.

Hægt er að þekkja myndir Goghs af sterkum litum og af því að pensilförin sjást mjög greinilega þar sem þau liggja samhliða. Með þessari litanotkun og pensilstrokum reyndi hann að mála tilfinningar sínar og reynslu.

Listmenn sem reyna að tjá hugsanir sínar og tilfinningar eins og van Gogh eru taldir til stefnu sem kallast expressjónismi. Van Gogh vildi líka að listin veitti öllu fólki gleði og huggun en væri ekki bara fyrir svokallaða listunnendur.

Van Gogh málaði margar sjálfsmyndir á listamannsferli sínum. Hann málaði fleiri sjálfsmyndir en nokkur annar að undaskildum Rembrandt. Frægastar urðu þær myndir sem Gogh málaði á þremur síðustu æviárunum.