Michael Ancher

Michael Ancher fæddist í Danmörku árið 1849. Ólíkt landslagsmálurunum var hann snemma hvattur til að verða listmálari og þegar hann var aðeins 22 ára gamall komst hann að sem nemi við Listaakademíuna. Þetta var árið 1871.

Michael Ancher hafði alla tíð áhuga á lífi og aðstæðum venjulegs fólks og notaði þau myndefni í málverk sín. Þegar hann kom í fyrsta sinn til Skagans, nyrsta hluta Jótlands í Danmörku, hitti hann fyrir fólk sem lifði við erfiðari aðstæður en hann átti að venjast. Það var því eðlilegt að Ancher yrði þjóðlífsmálari. Myndir hans heyra til stefnu sem kölluð er raunsæi af því að hann málaði raunveruleikann og fólkið eins og það er í raun og veru án þess að fegra það. Hann eyddi miklum tíma í að búa til skissur utandyra, oft með fyrirsætum til að málverkin yrðu eins raunsönn og trúverðug og hægt væri.

Ancher kom oft til Skagans og árið 1880 kvæntist hann dóttur kráareiganda á staðnum og settist þar að. Eiginkona hans hét Anna og var einnig fær málari og teiknari. Skaginn var á þessum tíma samkomustaður hóps málara sem fengu nafnið Skagamálararnir. Bæði Michael og Anna teljast til þessa hóps ásamt mörgum öðrum dönskum og norskum listamönnum. Hinn þekkti norski málar Christian Krohg dvaldi þar oft og lengi..

Michael Ancher fór ekki oft til útlanda en eftir langa heimsókn til Parísar verða myndir hans ljósari, léttari og líktust meira impressjónískum málverkum. Dæmi um það sjáum við á þessari sumarlegu mynd, Anna Ancher, eiginkona listamannsins, og Marie Krøyer á Søndreströnd á Skaga, þar sem konurnar tvær ganga um sandströndina í sólskininu.