Renessan

Endurreisn er nafn á tímabili eða stefnu sem var ráðandi frá um það bil 1400 til 1600.

Nafnið endurreisn er dregið af ítalska orðinu rinascita sem þýðir endurfæðing. Á þessu tímabili reyndu menn að endurvekja myndmál fornklassískrar listar en það er heiti á grískri og rómverskri fornaldarlist.

Mönnum fannst list þessa tíma svo góð að þeir vildu búa til verk í sama dúr. Þeir notuðu því þetta myndmál til að búa til enn betri listaverk. Stefnan er upprunnin á Ítalíu og þar einbeittu menn sér einkum að fjarvídd eða dýpt. Það leiddi til þess að fundin var upp aðferð til að sýna fjarvídd. Á þann hátt urðu málverkin eins og herbergi sem hægt var að horfa inn í.

Listamenn þessa tímabils urðu einnig færari í að sýna mannslíkamann á raunsannari hátt en áður var gert. Hinir miklu meistarar endurreisnarinnar, Leonardo da Vinci og Michelangelo, lögðu sig enkum eftir þessu.

Í Norður-Evrópu fór einnig fram endurreisn innan myndlistarinnar. Stefnan barst þó nokkru seinna til þess hluta Evrópu. Í Norður-Evrópu einbeittu menn sér að því að birta myndir af nákvæmum smáatriðum og yfirborði. Þetta sést greinilega í málverkum Jan van Eyck. Olíumálverk henta mjög vel til slíkrar málunar. Það var einmitt í þessum hluta Evrópu sem olíumálverkið var fundið upp.