Popart

Popplist er listastefna sem kom fram í Bandaríkjunum á árunum 1950-60. Á sama hátt og byrjað var að kalla vinsæla tónlist popptónlist þá var vinsæl myndlist kölluð popplist.

Ástæðan fyrir því að stefnan kallaðist popplist var sú að í henni birtist myndmál auglýsinga og alþýðumenningar nútímans. Það þýðir að listamenn notuðu í listinni það sem var vinsælt hverju sinni.

Það gat verið fengið úr svo ólíkum þáttum sem teiknimyndasögum, ljósmyndum, lífi stórstjarna, gosdósum og hamborgurum. Myndefnið er tekið úr því samhengi sem það er vanalega í og enduskapað í óvenjulegu umhverfi. Enski listamaðurinn Richard Hamilton notaði úrklippur úr dagblöðum og tímaritum í verk sín en Bandaríkja-maðurinn Roy Lichtenstein nýtti sér myndmál teiknimyndasagna í risastór olíumálverk sín.

Tæknin var sú sama og var notuð í kvikmyndum, auglýsingum, dagblöðum og tímaritum.

Einn af þekktustu popplistamönnunum er bandaríski listamaðurinn Andy Warhol. Hann notaði ljósmyndir af þekktu fólki og hlutum í myndir sínar. Sem dæmi þá gerði hann margar grafískar myndir af hinni þekktu leikkonu Marilyn Monroe.