Kubisme

Kúbismi er listastefna sem kom fram í kringum árið 1907. Það ár var haldin sýning til minningar um listmálarann Paul Cézanne. Cézanne hafði gert mikið að því að skoða hvernig unnt væri að lýsa náttúrunni með geómetrískum formum eins og ferningum, kúlum og keilum. Margir listamenn hrifust af þessu, einkum Pablo Picasso. Þetta sama ár málaði hann mynd sem heitir Ungfrúrnar frá Avignon en hún telst vera fyrsta kúbíska málverkið. Nafnið kúbismi er dregið af gríska orðinu kybos sem þýðir teningur.

Picasso og annar málari, sem hét Georges Braque, unnu í mörg ár að því að skilgreina hluti sem þeir höfðu fyrir framan sig. Þeir einfölduðu þá og byggðu upp af geómetrískum formum. Mannshöfuð var til dæmis sýnt sem kúla og handleggur sem sívalningur. Auk þess að leggja áherslu á geómetrísk form veittu kúbistarnir afrískri list athygli. Konurnar á mynd Picassos, Ungfrúrnar frá Avignon, eru með andlit sem minna á afrískar grímur. Þær voru með strengda andlitsdrætti og skrumskælda líkama. Það hefur sjálsagt ekki verið ætlunin að myndin væri falleg og margir voru einmitt þeirrar skoðunar að myndir Picassos væru hræðilega ljótar.

Myndir kúbistanna gengu þvert gegn hefðbundinni framsetningu mannslíkamans og fjarvíddinni. Þeir máluðu oft hluti séða að ofan og frá hlið á sömu myndinni. Glas gat til dæmis verið málað séð ofan frá, frá hlið og að neðan á einni og sömu myndinni.