Rammsett

Vefur um víkinga er ítarefni með bókinni um Leif Eiríksson – á ferð með Leifi heppna. Vefnum er ætlað að veita innsýn í daglegt líf fólks á víkingatímanum og störf þess en einnig siglingar og landafundi víkinga.

Heimildir okkar um fortíðina eru annars vegar fornminjar og hins vegar ritaðar heimildir, í þessu tilviki Íslendingasögurnar sem ritaðar voru á 12. og 13. öld. Fræðimenn greinir á um sannleiksgildi þeirra enda fjalla þær um atburði sem gerðust 200–300 árum áður en þær voru festar á blað. Líklegt er að ýmislegt hafi breyst á þeim tíma sem þær eru aðeins til í munnlegri frásögn mann fram af manni.

Þegar fornminjar finnast sem styðja eða staðfesta það sem ritað er í sögunum aukast líkur á því að við getum vitað hvað gerðist, þó aldrei verði það með fullri vissu. Þetta á við um húsarústir og mannvistarleifar sem fundist hafa í Haukadal, í Brattahlíð á Grænlandi og í L´Anse aux Meadows á Nýfundnalandi.