Guðríður Þorbjarnardóttir og Þorfinnur karlsefni

Guðríður Þorbjarnardóttir er talin víðförlasta kona miðalda. Hún var íslensk, fædd um 980 að Laugarbrekku á Snæfellsnesi. Guðríður var glæsileg kona, vitur og ráðagóð. Sagt er frá henni í Eiríks sögu rauða og er þar skemmtileg frásögn af því þegar hún aðstoðaði spákonuna Þorbjörgu .

Guðríður sigldi til Grænlands og giftist þar þrisvar, fyrst Þóri sem var kaupmaður og fórst með skipi sínu, síðan Þorsteini Eiríkssyni bróður Leifs, en hann dó úr farsótt þegar þau voru á leiðinni til Vínlands. Þriðji maður hennar var Þorfinnur karlsefni. Þau sigldu til Vínlands og voru 160 manns með í för þeirra. Þau könnuðu landið enn sunnar en aðrir og komu að stað sem þau nefndu Hóp. Líkur eru taldar á því að það sé sá staður þar sem New York borg stendur nú.

Skoðaðu kort: Þorfinnur karlsefni og Guðríður Þorbjarnardóttir reyna að byggja bú á Vínlandi. Landnám og víkingaferðir, sýning í Þjóðmenningarhúsinu.

Þar fæddist sonur þeirra Snorri sem var fyrsti hvíti maðurinn sem fæddist í Ameríku. En þau voru aðeins þrjú ár þarna af því að þeim samdi ekki við innfædda og sigldu aftur til Grænlands. Frá Grænlandi sigldu þau til Íslands og settust að í Glaumbæ í Skagafirði. Snorri tók síðar við búi foreldra sinna og byggði fyrstu kirkjuna sem reist var í Glaumbæ.

Eftir að Guðríður missti mann sinn fór hún í pílagrímsferð til Rómar. Hún hafði þá siglt átta sinnum yfir úthöf og ferðast yfir þvera Evrópu. Á þessum tíma var Guðríður einhver víðförlasta kona heims.