Fyrstu málverkin sem Tumi Magnússon sýndi á árunum upp úr 1980 voru í æpandi litum. Hann sagði sjálfur þá að hann reyndi að finna liti og litasamsetningar sem hann hefði ekki notað áður af því að hann langaði til að koma sjálfum sér á óvart. Hann sagði líka að hann málaði venjulega hluti en þó ekki eins og þeir væru venjulega.
Þessi svör lýsa Tuma nokkuð vel. Þau sýna að kímnigáfan er í góðu lagi enda hefur hún birst víða í verkum hans. Á árunum 1976 til 1981 var hann í nýlistadeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands, listaskóla í Hollandi og á Spáni og Englandi að kynna sér myndlist.
Hann hefur notað hversdagslega hluti í myndunum sínum, hnífapör, diska, pönnur, bolla og skrúfuhausa svo fátt eitt sé nefnt. Þessir hlutir gegna þó aldrei sínum eiginlegu hlutverkum í myndunum. Hlutverk þeirra er að tengja saman litfleti eða afmarka þá eftir því sem listamanninum þykir henta.
Morgunblaðið/Kristinn
Árið 1994 sýndi Tumi myndir sem minntu einna helst á litaprufur. Sýningin hét Fljótandi uppstillingar. Heiti myndanna sögðu hvað þær áttu að tákna: Ufsalýsi og laxablóð, Blek og sinnep, B2 vítamín og blómaáburður, Kvikasilfur og fægilögur, Messuvín og blóð.
Á sýningu í Nýlistasafninu 1996 sýndi hann verk sem hét Sósublettir. Þetta verk vann hann á staðnum. Hann dreifði sósublettunum um allan salinn. Ætlunin var að ná fram svipaðri tilfinningu og þegar sósa skvettist á skyrtu við borðhald.
Hann hefur líka sýnt ljósmyndir sem hann hefur unnið í tölvu. Hann hefur þá lagað myndirnar að sýningarsalnum, haft þær stórar eða litlar og teygt þær og togað eftir þörfum. Á sýningu sem hann hélt árið 2000 voru fjórar ljósmyndir í margvíslegum útgáfum. Ein var af nefinu á honum sjálfum, önnur af munni Ráðhildar, konu hans, sú þriðja af eyra sonarins og sú fjórða af auga dótturinnar. Þessi sýning hét Fjölskyldumynd.