ÞORVALDUR SKÚLASON 1906 – 1984

Kannski var það bara tilviljun að Þorvaldur Skúlason varð listmálari. Þegar hann var fjórtán ára var hann messadrengur á farþegaskipi sem sigldi milli Íslands, Skotlands og Danmerkur. Skipið hét Gullfoss. Messadrengir aðstoðuðu matsveininn en messi var matsalur skipverjanna.

Þorvaldur hafði alltaf haft áhuga á málverkum og myndlist. Þegar hann var í siglingunum fór hann oft á listasöfn að skoða verk frægra málara þegar skipið hafði viðdvöl í stórborgunum.

Svo bauðst honum að vera messadrengur á nýju skipi og stærra, Goðafossi, og þá varð hann heldur en ekki glaður. En hvort sem það var nú í gleði sinni yfir þessu eða ekki fór hann að keppa við einn félaga sinn í landi um það hvor gæti stokkið lengra. Það fylgir ekki sögunni hvor hafði vinninginn í þessari langstökkskeppni en hitt er vitað að Þorvaldur fótbrotnaði – og þar með var draumurinn um að starfa á nýja skipinu úr sögunni. Þetta var árið 1921.

1967, Þorvaldur Skúlason sýnir í Bogasal

Meðan Þorvaldur lá fyrir heima með brotinn fót byrjaði hann að teikna til þess að láta sér ekki leiðast. Hvort áhuginn á að læra að teikna kviknaði þá er ekki vitað en svo mikið er víst að hann fór um þetta leyti til tveggja þekktustu listamanna þjóðarinnar, Þórarins B. Þorlákssonar og Ásgríms Jónssonar, og bað þá að segja sér til. Síðar naut hann líka leiðsagnar Jóns Stefánssonar.

Sumarið 1923 var Þorvaldur á Blönduósi og kynntist ungum manni, fjórum árum eldri, sem teiknaði og málaði myndir í þorpinu. Hvert sem litið var mátti sjá myndefni, húsin, auðar göturnar, báta á sjónum. Þetta var Snorri Arinbjarnar sem átti eftir að verða þekktur myndlistarmaður. Þeir áttu sameiginlegt áhugamál, myndlistina og þeim varð svo vel til vina að þeir teiknuðu og máluðu saman.

Þorvaldur fór ekki aftur á sjóinn. Aftur á móti hélt hann áfram að teikna og mála og um tvítugt hélt hann sýningu á verkum sínum. Margir sáu nú hvað í honum bjó og hann fékk styrk frá Alþingi til þess að fara til útlanda í listnám. Hann var við nám í Osló, París og Kaupmannahöfn á árunum 1928 – 1939. Eftir það bjó hann á Íslandi.

Þorvaldur málaði í fyrstu eins og Snorri Arinbjarnar það sem fyrir augu bar. Hann þjappaði hlutum saman, málaði það sem honum þótti skipta máli en sleppti öðru. Síðar breytti hann oft um stefnu í list sinni. Hann var til dæmis einn þeirra sem fóru að mála abstraktverk upp úr 1950.

Hann var einn af brautryðjendum í íslenskri samtímalist á sínum tíma. Brautryðjandi er sá sem gerir eitthvað fyrst. Hann ryður brautina svo aðrir eigi auðvelt með að koma á eftir.