Ímyndaðu þér að þú farir inn í tímavél á Lækjartorgi í Reykjavík árið 2002. Hún á að fara með þig á sama stað árið 1885. Það heyrist ævintýralegt hviss en eftir stutta stund hættir það og þá máttu fara út. Og hvað sérðu þá?
Jú, þarna er Stjórnarráðshúsið beint á móti. Þar sem ríkisstjórnin heldur fundi. Og í Lækjargötunni er líka Menntaskólinn í Reykjavík. En það er lækur sem liggur eftir götunni og brú yfir hann upp í Bankastrætið – sem heitir víst Bakarabrekka.
Þú gengur inn í Austurstræti. Það eru engin stór steinhús, engir bankar, engin bókabúð og heldur ekkert veitingahús sem selur hamborgara. Húsin eru úr timbri. Maður kemur ríðandi á móti þér á fallegum hesti og þarna er líka maður með mikið skegg og skrýtinn hatt. Hann er með tvær fötur sem eru fullar af vatni.
Sjálfsmynd
Ungur maður kemur út úr húsi og þú spyrð hann hvar allir bílarnir séu. Hann horfir á þig og er hissa. Hann skilur greinilega ekki hvað þú ert að tala um. Eða kannski finnst honum þú vera eins og álfur út úr hól með vasadiskóið um hálsinn. Þá spyrðu hann hvað það eigi margir heima í bænum. Hann heldur að það séu um fjögur þúsund manns og brosir.
Af því að hann er svona vinsamlegur segirðu honum hvað þú heitir. Hann segir þér að hann heiti Þórarinn. Hann er nýkominn til Reykjavíkur ofan úr Borgarfirði og er að læra að binda inn bækur. “Vinnustofan er í þessu húsi” segir hann og lítur á húsið sem við stöndum við. “Hér er Prentsmiðja Ísafoldar”. Hann segist vera að fara út í Alþingishús. “Þar má nú sjá málverk sem Listasafni Íslands hafa verið gefin”, bætir hann við. “Það var stofnað í fyrra eins og þú veist kannski”.
Þú færð að fara með honum að skoða málverkin. Hann er mjög hrifinn af þeim og þú ert það líka. Hann segir að þau séu eftir útlenda listamenn, aðallega danska. Þarna eru margar fallegar landslagsmyndir.
Hundrað og sautján árum síðar langar þig til að vita meira um þennan vin þinn sem bauð þér með sér í Alþingishúsið þegar þú fékkst að skreppa aftur í tímann í tímavélinni. Þá kemur í ljós að þetta var Þórarinn B. Þorláksson. Hann var 18 ára þegar þú hittir hann og hafði mikinn áhuga á myndlist á þeim tíma. Kannski varð sýningin sem þið sáuð saman til þess að hann fékk áhuga á að læra að mála myndir. Hver veit?
Hann fékk tilsögn í málaralist hjá dóttur biskupsins, Þóru Pétursdóttur, en fór síðan til Kaupmannahafnar að læra meira. Hann var sjö ár erlendis við listnám.
Þegar hann sýndi málverkin sín í Reykjavík í lok ársins 1900 var það í fyrsta sinn sem íslenskur listamaður hélt málverkasýningu á Íslandi. Á þeirri sýningu voru meðal annars myndir sem hann hafði málað á Þingvöllum í birtu sumarnæturinnar.
Myndir Þórarins af íslenskri náttúru sýna hreinleika og fegurð landsins. Í þeim er mikil kyrrð og rósemd. Þess vegna hefur hann verið kallaður málari blíðunnar.