SVAVAR GUÐNASON 1909 – 1988

Mörgum þætti lífið eflaust dauflegt ef ekki væri sjónvarp í stofunni heima. Ef ekki væri hægt að fara í bíó. Ef engar bækur með litríkum myndum væru prentaðar.

Börn sem voru að alast upp á Íslandi á fyrstu árunum eftir aldamótin 1900 leiddu hugann reyndar aldrei að þessu. Það var ekki sjálfsagður þáttur í daglegri tilveru þeirra að hafa eitthvert myndefni fyrir augunum.

Þegar Svavar Guðnason var lítill strákur á Höfn í Hornafirði horfði hann á fjöllin sem blöstu við með alla sína tinda. Hann sá Öræfajökul, stóran og hvítan, úr túninu heima og var oft að virða hann fyrir sér og dást að því hvað hann væri fallegur. Fjöllin og jökullinn voru hans bíó.

Og hann teiknaði myndir af fjöllunum og jöklinum. Honum þótti svo gaman að teikna. Reyndar þótti honum alltaf dálítið erfitt að eiga við tindana. Það vildi snúast upp á þá. Þeir vildu verða eins og hrútshorn!

Þegar hann var sextán ára var hann farinn að mála með litum. Litina þurfti að panta frá Englandi. Það var alltaf mikill gleðidagur þegar litapöntunin kom. Hann skrúfaði lokið af litatúbunum og horfði lengi á hvern lit. Í hans augum voru þessi litir eins og töfralyklar. Þeir gerðu lífið ríkt og merkilegt.

Svavar lærði myndlist í Kaupmannahöfn og París. Hann starfaði lengi í útlöndum og málaði abstraktmyndir. Hann sýndi verk sín í Reykjavík árið 1945 og þá urðu margir hissa af því að það var ekkert landslag í þeim. Fólk vildi hafa landslag í málverkum. Eiginlega var ekki neitt sérstakt í neinni mynd. Þetta voru bara form, línur og litir. Allar myndirnar á sýningunni voru í þessum dúr. Þetta var í fyrsta sinn sem íslenskur málari sýndi eingöngu abstraktmyndir.

En hvað finnst þér? Horfðu nú á mynd sem heitir Gullfjöll en hún er frá þessum árum. Sérðu fjöllin og tindana? Gullfjöllin eru tindótt alveg eins og fjöllin sem hann hafði fyrir augunum þegar hann var strákur heima í Hornafirði. Svona urðu þau til í huga hans. Sjáðu hvernig hann leikur sér með litina. Er ekki mikill kraftur í töfralyklunum hans?