STEINUNN ÞÓRARINSDÓTTIR 1955

Steinunn Þórarinsdóttir er myndhöggvari. Hún lærði list sína í Englandi og á Ítalíu á árunum 1974 til 1980.

Hún heggur þó ekki verk sín í stein eins og myndhöggvarar hafa gert um aldir þó að hún hafi lært á Ítalíu að höggva í marmara með hamri og meitli. Hún mótar verkin úr margvíslegum efnum, steypir, sker út, sýður saman og brennir. Hún notar málma, gler, gifs, leir og steinsteypu sem hún hefur blandað með grófum sandi og vikri. Hún hefur líka gert tilraunir með blý og fleiri efni.

Verk eins og hún vinnur eru oft nefnd skúlptúrar. Hún hefur sagt að það hafi alltaf höfðað meira til hennar að vinna verk í þrívíðu formi en að mála myndir. Verk sem skoða má úr öllum áttum eru oftast þrívíð. Hún hefur líka búið til lágmyndir sem eru hafðar á vegg. Stundum er einn hlutur í slíku verki. Stundum margir hlutir sem hún raðar saman.

Hún velur efnið með hliðsjón af þeim áhrifum sem hún er að sækjast eftir hverju sinni. Með því að tengja saman ólík eða andstæð efni í sama verkinu nær hún oft fram sterkum áhrifum. Þannig notar hún stundum þungt járn á móti léttu gleri. Í verkum sínum er hún oft að segja einhvers konar sögu en fyrst og fremst eru þau sprottin úr huga hennar. Þau eru þá leikur með form, innihald og efni.

Listamenn eins og Steinunn þurfa að hafa stóra vinnustofu. Efnið sem hún notar tekur sitt pláss. Og hún þarf oft að takast á við stóra hluti og suma hættulega, gler, grjót og málmplötur, því að verkin hennar eru mörg hver stór í sniðum. En henni þykir einmitt skemmtilegast að fást við verk sem eru stór. Eiginlega er vinnustofan hennar verkstæði því að hún notar oft rafsuðutæki og margskonar verkfæri.

Hún hefur mjög oft mannveru í verkum sínum og sýnir tengsl mannsins við umhverfið. Við Sandgerði er stór skúlptúr eftir hana. Það er minnismerki um sjómenn á Suðurnesjum og sýnir manninn gagnvart hafinu. Hafið birtist í stórum bylgjum úr stáli en maðurinn er steyptur úr pottjárni.

Á Grundarfirði er annar stór minnisvarði úr bronsi um sjómenn og altaristaflan í Kópavogskirkju er eftir hana.