Snorri Arinbjarnar var alltaf að teikna þegar hann var drengur í Reykjavík. Þegar hann var fjórtán ára fór að hann að teikna myndir í dagbók sem enn er til. Snorri teiknaði myndir úr stríðinu, úr Íslendingasögunum og einn og einn draug. Hann málaði líka vatnslitamyndir á unglingsárunum. Hann merkti myndirnar með upphafsstöfum sínum, SAN, fyrir Snorri Arinbjarnar Norðfjörð. Stundum skrifaði hann líka nöfn heimsfrægra málara við hliðina á stöfunum.
Hann fékk tilsögn í teikningu í Reykjavík, meðal annars hjá Muggi, og var í listaskólum í Kaupmannahöfn og Osló.
Snorri málaði myndir úr daglegu lífi fólks, af húsum og götum, og af lífinu við höfnina. Þegar hann horfði yfir það sem hann ætlaði að mála var aldrei ætlun hans að hafa allt sem hann sá í málverkinu. Það átti ekki að vera nákvæm eftirlíking.
Þegar hann var að mála niðri við höfn voru oft mörg skip við bryggju. Kannski fékk bara eitt af þeim að vera í málverkinu. Hann málaði skipið eins og það væri stór trékubbur, dimmbrúnn eða svartur. Fyrir neðan var blár sjórinn og fyrir ofan himinn sem var kannski með hvítum, kringlóttum skýjum. Kannski var ekkert meira en þetta í þessu málverki.
Þegar Snorri var að mála myndirnar sínar á árunum milli 1930 og 1940 var fátækt og atvinnuleysi í landinu. Það var dimmt yfir öllu. Litirnir í mörgum myndum sem hann málaði á þessum tíma eru líka oft dimmir, svartir, brúnir eða gráir með andstæðum lit í einu áhersluatriði. Þannig túlkaði hann anda kreppuáranna, sáran hversdagsleikann sem einkenndist af fátækt og fábreytni.
En svo kom betri tíð. Það byrjaði með því að Bretar hernámu Ísland í stríðinu. Allir fengu vinnu og nú fór að birta yfir á ný. Snorri hélt áfram að mála myndir af hversdagslegu umhverfi og mannlífi en nú var veröldin orðin hlýrri og bjartir og heitir litir komnir í staðinn fyrir þá dimmbrúnu og gráu.