Sigurjón Ólafsson myndhöggvari var óvenju fjölhæfur listamaður. Það má með sanni segja að hann hafi verið myndhöggvari því að allt til ársins 1970 hjó hann margar myndir sínar í stein með hamri og meitli. Hann gerði líka myndir úr járni og kopar, tré, rekaviði, leir, gifsi og steinsteypu. Sigurjón var einn helsti brautryðjandi nútímalegra og nýtískulegra viðhorfa í íslenskri höggmyndalist.
Hann fæddist og ólst upp á Eyrarbakka. Þar var oft mikið um að vera þegar hann var lítill strákur. Eyrarbakki hafði um langt skeið verið miðstöð verslunar og útræðis á Suðurlandi. Fjaran var mikill ævintýraheimur og þar undi Sigurjón sér vel. Oft mátti finna þar margt skrýtið sem sjórinn hafði skolað á land.
Það kom snemma í ljós að Sigurjón hafði góða myndlistarhæfileika. Hann var líka flestum stundum að teikna. Stundum teiknaði hann andlit þekktra manna í fjörusandinn. Svo áttu krakkarnir að segja hverjir þeir væru. Seglskipin sem lágu oft fyrir akkerum úti á sjónum voru líka skemmtilegt myndefni.

Ljósm.s. Rvk./Þjóðviljinn
Hann teiknaði svo vel að krakkarnir í bekknum voru farnir að kalla hann Sigurjón málara þegar hann var tólf ára. Í skólanum var kennd teikning en það var ekki venjan í barnaskólum á Íslandi þá. Hann fékk að teikna eftir myndum í bókum, póstkortum og ljósmyndum og stundum líka eftir uppstoppuðum fuglum.
Um fermingaraldur, 1923, fluttist Sigurjón til Reykjavíkur. Hann fékk tilsögn í málaralist hjá Ásgrími Jónssyni og í höggmyndalist hjá Einari Jónssyni. Hann lærði líka húsamálun í Iðnskólanum. En hann langaði til að verða myndhöggvari og árið 1928 fór til Kaupmannahafnar. Hann stundaði nám við Konunglega listaháskólann til ársins 1935 og þótti framúrskarandi nemandi eins og marka má af því að hann fékk gullverðlaun fyrir eitt verka sinna snemma á námsferlinum.
Sigurjón kom aftur heim að loknu stríðinu 1945 eftir sautján ára dvöl í Danmörku og víðar. Þá var hann mikils metinn listamaður í Danmörku eins og hér heima. Hann settist að í Laugarnesi í Reykjavík því að honum hafði alltaf liðið svo vel nálægt sjónum. Í húsinu þar sem hann bjó og starfaði er nú Listasafn Sigurjóns Ólafssonar.
Mörg útilistaverk hans eru í Danmörku og mörg líka hér á landi. Við Suðurlandsbraut í Reykjavík er Klyfjahesturinn hans og folaldið, við Höfða eru Öndvegissúlur, rétt hjá Sjómannaskólanum er stór lágmynd sem heitir Saltfiskstöflun, við Borgarleikhúsið er Gríma og við Hagatorg er stórt og mikið verk, Íslandsmerki, en það er minnismerki um stofnun lýðveldis á Íslandi 1944.