SIGURÐUR ÁRNI SIGURÐSSON 1963

Sigurður Árni Sigurðsson málar ekki myndir af landslagi eins og við erum vön að sjá. Í landslagsmyndunum hans sjáum við ekki eitthvað sem er fremst, síðan kannski fjöll lengra í burtu og himin þar fyrir ofan. Hann horfir á landið ofan frá.

Sumar myndirnar hans eru eins og loftmyndir af ökrum, túnum og skurðum. Það er ekkert endilega íslenskt landslag. Það gæti verið hvar sem er í heiminum. Í augum hans er landslagið form sem má leika sér með á marga vegu.

Formmótun Sigurðar byggir á birtunni. Í sumum myndum hans er eins og hún komi innan úr myndfletinum og flæði út til hliðanna. Svona reynir hann að rugla áhorfandann í ríminu.

Stundum er eins og hlutir svífi í lausu lofti í myndunum hans en þá er bara verið að plata augað. Hann setur skugga yfir og undir þessa hluti, fyrir aftan þá og framan. Þá er eins og hlutirnir séu ekki fastir við myndflötinn.

Mogunblaðið/Árni Sæberg

Sigurður Árni Sigurðsson er af yngstu kynslóð íslenskra myndlistarmanna. Hann er fæddur á Akureyri og stundaði myndlistarnám þar, í Reykjavík og í París. Hann hefur átt heima í París og Reykjavík frá því að hann lauk námi 1991 og haldið sýningar á verkum sínum víða í Evrópu.