Þegar Nína Tryggvadóttir var að mála myndir af húsum á Grímstaðaholtinu í Reykjavík 1943 sá hún þau fyrir sér eins og kubba. Það voru engin smáatriði. Engar dyr. Á einni mynd var kannski bara eitt hús með glugga.
Á þessum tíma var stríð í Evrópu. Útlendir hermenn voru út um alla Reykjavík og víðar á Íslandi. Það var allt einhvern veginn öðruvísi en það hafði verið. Allt var að breytast. Líka í myndlistinni.
Listmálarar sem höfðu nýlega lært í útlöndum máluðu ekki landslagsmyndir eins og gert hafði verið. Þeir sem áttu heima í Reykjavík fóru ekki upp í sveit að mála. Þeir máluðu myndir úr nánasta umhverfi sínu – af húsunum í bænum og fólkinu á götunum.
Nína fæddist á Seyðisfirði og átti alltaf æskuminningar þaðan um sterka liti í landslaginu. Hún mundi alltaf eftir því að sjórinn var stundum sléttur eins og spegill og stundum úfinn. Og hún mundi eftir fuglunum. Þeir voru oft fyrirsætur í myndunum sem hún teiknaði. Henni þótti svo gaman að teikna.
Hún hélt áfram að teikna í stílabækurnar sínar í barnaskólanum þegar hún flutti til Reykjavíkur með foreldrum sínum og systkinum árið 1920. Þá var hún sex ára.
Árin liðu og Nína fór að velta því fyrir sér hvað hún ætti að gera í framtíðinni. Pabbi hennar lagði til að hún lærði matreiðslu. Gæti ekki verið gaman að vera kokkur?
Nei. Hana langaði ekki til þess. Hvað langaði hana þá til að verða? Hún hugsaði mikið um þetta. Ljóðskáld? Eða tískuhönnuður? Henni þótti alltaf svo skemmtilegt að koma á saumastofuna til frænku sinnar á Vesturgötunni. Þar hafði hún oft teiknað, sniðið og saumað á sig falleg föt.
Hún gat ekki ákveðið neitt. En þegar hún fór að læra að teikna og mála í kvöldskóla vissi hún fljótlega hvað hún vildi verða: Listmálari!
Hún var í listaskóla í Kaupmannahöfn, bjó lengi í París og London og síðustu ár ævinnar í New York og Reykjavík. Hún málaði fyrst myndir úr nánasta umhverfi sínu.
Hún málaði líka myndir af fólki og abstraktmyndir.
Nína bjó til myndir úr steindu (lituðu) gleri, meðal annars glugga í Þjóðminjasafni Íslands sem sýnir Kristnitökuna árið 1000. Hún gerði líka stóra mósaíkmynd á kórgafl Skálholtskirkju. Þannig myndir hafa verið kallaðar steinfellur því að í þeim eru felldir hver við annan smásteinar í mörgum litum.
Hún orti líka ljóð og skrifaði barnabækur og myndskreytti þær, meðal annars bækurnar Kötturinn sem hvarf, Fljúgandi fiskisaga og Stafirnir og klukkan.