MAGNÚS PÁLSSON 1929

Þegar Magnús Pálsson var lítill fékk hann oft skemmtilegar flugur í kollinn.

Hann fæddist og ólst upp á Eskifirði en var stundum í sveit á sumrin austur í Grímsnesi rétt við á sem heitir Sogið. Stundum var áin algerlega stífluð. Vatnið var þá fyrir ofan stífluna en farvegurinn fyrir neðan alveg þurr. Þá hugsaði hann með sér að það væri gaman að geta breytt landslaginu. Hann sá fyrir sér stórt stöðuvatn sem væri allt frosið og að hægt væri að taka allan ísinn upp úr því og reisa hann upp á endann. Það yrði frábært, fannst honum.

Magnús hefur alltaf átt til hugmyndaflug í ríkum mæli – og þörf fyrir að skapa. Þó hefur varla hvarflað að honum þegar hann fékk þessa hugdettu við Sogið að sköpunarþörfin ætti eftir að finna sér farveg í myndlist á fullorðinsárunum. Að hann ætti eftir að starfa sem myndlistarmaður á sviði hugmyndalistar. En sú varð reyndar raunin.

Morgunblaðið/Árni Sæberg

Hann fór að láta að sér kveða í íslensku listalífi á árunum milli 1960 og 1970 eftir að hafa verið í listaskólum í Reykjavík og Austurríki og lært að búa til leikmyndir í Englandi. Á þessum árum urðu miklar breytingar í íslensku listalífi. Hann og aðrir listamenn sem þá voru að koma fram á sjónarsviðið litu öðrum augum á myndlistina en áður hafði verið gert og fóru allt aðrar leiðir. Þeir voru kallaðir nýlistamenn.

Nýlistamennirnir sögðu að eitt listaverk gæti verið allt í senn, málverk, höggmynd og ljóð. Leikni í höndunum skipti ekki öllu máli. Listaverkið sjálft var ekki aðalatriðið heldur hugmyndin sem það átti að miðla. Þannig hafa verk Magnúsar verið.

Árið 1976 sýndi hann til dæmis verk sem hann kallaði Lúðurhljómur í skókassa.
Það voru þrír hlutir úr gifsi. Einn hékk í loftinu og tveir lágu á borði. Hugmyndina sótti hann í söguna um frosna lúðurhljóminn eftir Munchausen – en sá furðufugl var mesti lygalaupur. Hann var eitt sinn á veiðum og ætlaði að blása í veiðihornið sitt en þá var svo mikið frost að hljómurinn fraus í því. Um kvöldið þiðnaði hljómurinn svo í veiðikofanum og þá barst hann úr horninu.

Í verki eftir Magnús sem heitir Flæðarmál og er líka frá 1976 er gifsklumpur sem má skipta í þrjá hluta. Þeir eru afsteypur af flæðarmáli, hafi og himni. Þegar hlutirnir eru settir saman mynda þeir eina heild.

Magnús Pálsson hefur verið einn helsti þátttakandi í nýrri skilgreiningu á hugtakinu list í íslenskri myndlist, sem hugmyndasmiður og sem lærimeistari. Hugmyndaleg listsköpun hans hefur alltaf verið afar persónuleg. Hann hættir aldrei að koma á óvart með verkum sínum. Hann er alltaf að fá einhverja flugu í kollinn.