Ef þú sérð málverk sem sýnir gulgrænt tún og í baksýn eru fjöll og dimmblár sjór og þrjár kindur, tvær hvítar og ein svört, og það er kona á túninu, kannski í ljósbláu pilsi og rauðri peysu með svörtum og hvítum ermum, þá er það eftir Louisu Matthíasdóttur – og konan er hún. Það er alveg áreiðanlegt. Þá er líka alveg áreiðanlegt að yfir myndinni er notaleg rósemd og líka yfir þessari hvíthærðu konu.
Eitt aðaleinkenni í myndum Louisu er einmitt jafnvægi og kyrrð. Þær eru tærar og skýrar í formum og litum. Hún málaði með breiðum pensli og dró fram það sem henni þótti skipta máli en sleppti öllum aukaatriðum.
Louisa fæddist og ólst upp í Reykjavík. Hún átti lengi heima í frægu húsi sem heitir Höfði. Þegar hún var lítil gaf eldri bróðir hennar henni liti og þá kom strax í ljós að hún hafði góða hæfileika til að teikna og mála. Áhugann vantaði heldur ekki. Foreldrar hennar sáu hvað í henni bjó og hvöttu hana til að halda út á listabrautina.
Louisa fór til Kaupmannahafnar að læra auglýsingateikningu og skreytingarlist árið 1934. Þá var hún sautján ára. Foreldrar hennar hugsuðu sem svo að slíkt listnám væri skynsamlegra en almennt myndlistarnám. Það væri ekki víst að hún gæti lifað á myndlistinni einni saman. Hún var alveg sammála því.
Hún var við nám í Kaupmannahöfn í fjögur ár og líka í París og Berlín. Árið 1942 sigldi hún til Ameríku til að læra meira. Þar átti hún eftir að búa til æviloka.
Louisa málaði margar myndir af íslenskri náttúru eins og hún sá hana fyrir sér. Hún málaði líka myndir af húsum og götum í Reykjavík. Og hún málaði margar myndir
af sjálfri sér og öðrum og af uppstillingum.