KRISTJÁN DAVÍÐSSON 1917

Kristján Davíðsson er þekktastur fyrir kraftmiklar abstraktmyndir af íslenskri náttúru. Þær sýna ekki landið eins og það er í raun og veru. Hann málar ekki eftirlíkingar af neinu, hvorki náttúrunni né öðru, heldur hugsar hann með augunum. Myndirnar túlka tilfinningu hans gagnvart myndefninu hverju sinni.

Þegar hann var fimm ára sá hann mann mála málverk í fyrsta sinn. Það var á Patreksfirði en þar ólst hann upp. Maðurinn var Guðmundur Thorsteinsson sem var alltaf kallaður Muggur. Krökkunum á Patreksfirði þótti merkilegt að sjá Mugg. Hann var þá frægur maður á Íslandi. Hann hafði lært að mála í útlöndum og hann hafði líka leikið í bíómynd.

Það er aldrei að vita nema þessi fyrstu kynni Kristjáns af myndlistinni hafi haft þau áhrif að hann langaði sjálfan til að mála. Þegar hann var fluttur til Reykjavíkur löngu síðar fór hann í skóla til að læra að teikna. Svo fór hann til Ameríku til frekara náms.

KRISTJÁN Davíðsson listmálari opnar sýningu á morgun í sýningarsal Sævars Karls í Bankastræti. Verkin á sýningunni eru öll ný. Kristján Davíðsson hefur sýnt mikið að undanförnu.

Morgunblaðið/Kristinn

Á árunum milli 1950 og 1960 voru margir íslenskir myndlistarmenn að mála abstraktmyndir með sléttum og aðgreindum formflötum og hreinum og andstæðum litum. Þessi svonefnda strangflatarlist var Kristjáni ekki að skapi. Hann sat þess vegna hjá meðan margir aðrir máluðu svona myndir.

Um tíma málaði hann slettumyndir sem svo voru nefndar. Þá sletti hann lakki á dúk eða striga nokkrum sinnum. Hann var fyrsti íslenski listmálarinn sem málaði slettumyndir en slík myndsköpun var engin ný bóla því að úti í Bandaríkjunum hafði maður orðið frægur fyrir að hella úr málningarfötu yfir strigadúka sem lágu á gólfi og draga síðan strik út frá málningunni með löngu priki.

Abstraktlist Kristjáns er ljóðræn. Í mörgum verka hans kemur fram skynjun hans á náttúrunni. Stundum ber hann mikið efni á strigann og notar spaða. Stundum notar hann pensil og þá er áferðin létt og leikandi. Stundum eru litirnir skærir og flæða um myndflötinn af miklum krafti.