JÓHANNES SVEINSSON KJARVAL 1885 – 1972

Jóhannes Sveinsson Kjarval var einn af frumherjunum í íslenskri myndlist. Hann fór þó öðruvísi að en aðrir. Þegar hann málaði myndir af íslenskri náttúru horfði hann niður í landið. Hann málaði mosann og hraunið og steinana. Stundum var himinninn bara lítil rönd efst. Það hefur verið sagt að hann hafi kennt Íslendingum að horfa á landið sitt.

Kjarval fæddist á Meðallandi sem er sveit á Suðurlandi en ólst upp á bænum Geitavík í Borgarfirði eystra frá fimm ára aldri. Fyrstu myndirnar sínar teiknaði hann með rauðum og grænum steinum sem voru í gilinu fyrir ofan bæinn. Hann teiknaði með steinunum á slétta kletta í fjallinu.

Hann horfði hugfanginn á seglskúturnar sem oft mátti sjá úti á sjónum. Þegar hann eignaðist pappír og liti teiknaði hann mynd af skútu. Það var langskemmtilegast. Ekkert í heiminum var eins fallegt og skúta með hvítum seglum. Þegar hann var að læra að skrifa teiknaði hann skútu í aðra hverja línu í skriftarbókina sína.

Kjarval hélt fyrstu málverkasýningu sína í Reykjavík 1908 þó að hann hefði ekki lært mikið. Þremur árum síðar reyndi hann að komast í listnám í London en komst ekki inn í skólann. Hann dvaldi þar þó áfram, skoðaði málverk eftir meistara myndlistarinnar á söfnum og málaði sjálfur. Nú var hann ekki lengur Jói í Geitavík. Hann fór að kalla sig Kjarval en það er írskt konungsnafn.

Síðar var hann við listnám og störf í Danmörku í mörg ár og hann kynnti sér líka myndlist í öðrum löndum. Þegar hann fór að sýna myndirnar sínar heima þóttu mörgum þær undarlegar. Þær voru ekki eins og aðrir íslenskir listamenn höfðu málað. Það var enginn víður fjallahringur eins og fólk sá venjulega í íslenskum málverkum. Hann fór sínar eigin leiðir í myndsköpun sinni.

Auk landslagsmyndanna málaði hann myndir sem tengdust efni þjóðsagna. Hann teiknaði líka myndir af fólki, sérstaklega frá æskuslóðunum á Austurlandi.

Upp úr 1930 fór hann að mála myndir af landslagi. Hann stóð úti við málaratrönurnar með litaspjaldið, oft á Þingvöllum eða í Gálgahrauni á Álftanesi, og málaði undir berum himni. Hann málaði hvernig sem veðrið var, jafnvel í roki og rigningu. Honum þótti ekki mikið varið í að mála í sól og blíðu. Best var að mála í dumbungi, sagði hann. Þá nutu litirnir sín best.

Kjarval þótti sérstaklega vænt um Þingvelli, hraunið, mosann og gjárnar. Þar málaði hann margar glæsilegustu myndir sínar. Í þeim og í mörgum öðrum mynda hans má stundum sjá dularfullar verur, stundum bara andlit, í hraundröngum eða litríkum steinum.