Verk Katrínar Sigurðardóttur eru ekki málverk og ekki heldur höggmyndir. Hún vinnur með rými og býr til líkön af ýmsu tagi, stór og smá. Á sýningum hennar eru innsetningar. Þær byggjast á hugmyndum hennar sem stundum kalla á smíði stórra hluta. Hún veit auðvitað fyrirfram hvernig hún ætlar að hafa verkið sem hún er að vinna að. Aftur á móti veit hún aldrei hvaða áhrif það hefur á hana sjálfa og aðra fyrr en það er komið upp. Að þessu leytinu er hún alltaf að gera tilraunir og það þykir henni spennandi.
Eitt verka Katrínar af smærri gerðinni heitir “The green grass of home”. Það er í rauninni landslag í ferðatösku. Já, þetta er taska úr krossviði með mörgum skúffum eða hólfum í. Þegar hún hefur verið opnuð má taka hólfin úr og þá kemur í ljós að í hverju þeirra er líkan eða eftirmynd af garði. Á einhverjum tímum í lífi sínu hefur hún átt heima rétt hjá hverjum þeirra. Þarna er til dæmis Miklatún í Reykjavík, Hellisgerði í Hafnarfirði og líka stórir garðar í bandarískum borgum þar sem hún hefur búið.
Morgunblaðið/Ásdís
Segja má að ferðalög séu Katrínu hugleikin. Sum eru þó afar undarleg. Á sýningu árið 1998 sem hún nefndi “Flögð og fögur skinn” sýndi hún landakort af eyjum. Ekki komu þessar eyjar kunnuglega fyrir sjónir áhorfenda enda kom á daginn að þær voru ekki til á neinu landakorti. Þetta voru stækkaðar ljósmyndir af fæðingarblettum á líkama hennar sjálfrar.
Katrín útskrifaðist frá nýlistadeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1988 og stundaði framhaldsnám í Bandaríkjunum. Hún hefur búið í New York og Reykjavík síðan.
List Katrínar er skilgreind sem hugmyndalist. Hugmyndir sækir hún oft í persónulega reynslu. Hún vill að áhorfandinn segi sjálfum sér hvað verk hennar merkja. Hann má alveg nota ímyndunaraflið og leika sér.