KARL KVARAN 1924 – 1989

Karl Kvaran málaði abstraktmyndir. Hann var ævinlega trúr þeim stíl – og þróaði hann – þó að flestir af hans kynslóð fitjuðu upp á öðru í samræmi við strauma og stefnur í listinni. Hann sagðist ekki hafa neina þörf fyrir breytingar.

Karl var líka þeirrar skoðunar að aðeins eitt skipti máli í myndlist. Hvort myndin væri góð eða ekki. Formið var aukaatriði að hans dómi. Honum fannst abstraktlistin bjóða upp á meira frelsi en önnur form. Þess vegna málaði hann þannig myndir.

Hann lagði áherslu á að þær væru einfaldar. Þannig voru þær áhrifaríkari en ella. Það mátti ekkert vera í myndfletinum sem hefði litla eða enga þýðingu. Allt varð að vera skýrt. “Ætli maður til dæmis að draga bogna línu verður hún að vera skýr og það sama á við um beinar línur”, sagði hann.

Karl Kvaran

Ljósm.s. Rvk./Asis

Karl fæddist á Borðeyri. Fimmtán ára byrjaði hann að læra myndlist, fyrst í einkatímum og síðan við Handíðaskólann í Reykjavík og í listaskólum í Kaupmannahöfn. Hann lauk námi 1948 og sýndi fyrst verk sín heima með listamönnum sem unnu abstraktmyndir. Þeir voru kallaðir Septemberhópurinn af því að þeir héldu sýningar í september.

Til þess að geta málað abstraktmynd þarf listamaðurinn að hafa góða tilfinningu fyrir formunum sem mynda heildina á myndfletinum, byggingu þeirra og litum. Og það þarf líka góða teikniþjálfun.

Karl var meistari línunnar. Línurnar í myndum hans eru stundum láréttar og stundum lóðréttar, grannar eða sverar, oftast svartar. Stundum teygja þær sig hver yfir aðra yfir bakgrunn með mörgum litaflötum. Oft eru þær eins og litlir bogar í laginu og eins og á hreyfingu. Sumar línur flæða yfir myndflötinn og hafa þá byrjað einhvers staðar fyrir utan hann og enda þar líka. Aðrar fara kollhnísa, steypa sér í hringi eða renna sér yfir myndflötinn, hlykkjóttar í laginu, allar á iði.

Hann notaði sterka liti. Honum fannst mikils um vert að láta þá halda sérkennum sínum, uppruna og hreinleika. Þegar leið á listferilinn fór hann að nota færri liti, aðallega hvítan og svartan en líka vínrauðan og bláan. Í síðustu myndunum sem hann málaði var bara svart, hvítt og blátt en hann hafði alltaf mestar mætur á þeim litum.

Karl Kvaran var mjög kröfuharður og vandvirkur listamaður. Í myndunum hans er hvert smáatriði, línur sem litir, yfirvegað og meðvitað.