JÓHANNA KRISTÍN YNGVADÓTTIR 1953 – 1991

Í myndum Jóhönnu Kristínar Yngvadóttur ber mest á manneskjunni. Konan var alltaf helsta myndefni hennar, oft í dimmu og þunglyndislegu umhverfi. Í myndum hennar eru einlægar tilfinningar. Þær fjalla um það hvernig er að vera manneskja í myrkvuðum heimi.

Hún ætlaði sér alltaf að verða listakona, helst leikkona, en hélt á vit þagnarinnar eins og hún orðaði það sjálf. Í þögninni voru litir. Þegar hún var barn teiknaði hún aðallega konur, fallegar og vel klæddar, og litaði þær með vaxlitum. Síðar, þegar hún hafði verið í listaskólum í Reykjavík og í Amsterdam í Hollandi í átta ár, voru ballerínur oft myndefni hjá henni. Þær eru í tjullpilsum en þær dansa aldrei. Þær bara sitja eða standa í hálfrökkrinu.

Margar mynda Jóhönnu spegla kvölina sem fylgir því að vera til. Það undirstrikaði hún með dimmum litatónum. Hún málaði líka myndir í bjartari litum þegar henni fannst það henta. Hún málaði oftast upp úr sjálfri sér, eitthvað sem hafði snert hana persónulega, minningar eða fólk sem var henni náið. Hún málaði líka myndir af sjálfri sér.


Ljósm.s. Rvk./Þjóðviljinn

Í sjálfsmyndunum situr hún oft með hendur í skauti í dimmum skuggum og er þreytt að sjá. Þreytan er ekki bara í andlitinu heldur í öllum líkamanum. Með þessu segir hún okkur hvernig líf hennar var. Hvernig henni leið.

Öllum sem fjölluðu um myndlist bar saman um að verk Jóhönnu Kristínar Yngvadóttur væru mjög áhrifarík. Einn sagði að þau spryttu fram eins og gimsteinar úr fylgsnum. Þarna kemur fram málari af þeirri stærðargráðu að furðu sætir, sagði annar.

Hún var eitt sinn spurð hvað henni þætti um afstöðu fólks til málverka eins og þeirra sem hún málaði sjálf og til lista yfirleitt.

“Menn hugsa allt of mikið um málverk sem skraut og stundargaman”, svaraði hún. “Fólk skilur ekki að þetta er tjáning og það alvarleg tjáning. Það heldur að listamenn séu bara fífl. Þetta er mikið skólunum að kenna því ef kennd væri listasaga og farið væri með börn á söfn þá mundi þessi afstaða breytast”.