JÓHANN EYFELLS 1923

Jóhann Eyfells býr til þrívíð listaverk sem hann kallar sjálfur skúlptúrverk. Verk sem svo eru kölluð geta verið höggmyndir. Þau geta líka verið verk sem listamaðurinn hefur ekki höggvið í stein eða búið til úr öðrum efnum. Þannig eru skúlptúrverk Jóhanns. Þau eru mjög sérstök, stór og fyrirferðarmikil. Trúlega er það ástæða þess að þau hafa sjaldan verið sýnd hér á landi. Hann býr nefnilega í Ameríku.

Hann á heima í stóru húsi með stórum garði í Flórída. Hann þarf líka að hafa gott svigrúm til þess að geta búið hina stóru skúlptúra sína til. Og helst þarf hann að geta unnið úti í heitu loftslagi árið um kring. Þess vegna þykir honum gott að búa í Flórída.

Þegar Jóhann er að vinna að skúlptúrverkunum byrjar hann á að grafa stóra holu úti í garði með gröfu því að hann notar jörðina sem mót. Svo tekur hann einhvern stóran málmbút og bræðir hann. Það gerir hann með stórvirkum bræðslutækjum. Þegar málmurinn bráðnar hellir hann honum í dropatali í holuna. Svo storknar hann aftur og fær á sig nýja mynd í föstu formi. Það er listaverkið.


Ljósmyndari óþekktur

Málmarnir sem hann notar í listaverkin hafa ekki allir sömu eiginleika. Spennan sem myndast í þeim er mismunandi og þess vegna þróast þeir misjafnlega þegar þeir hafa verið bræddir. Hitastigið í þeim skiptir líka máli. Best þykir Jóhanni að nota málma sem storkna hratt.

Þegar listaverkið hefur storknað í holunni og kólnað lyftir hann því upp og hefur endaskipti á því. Það sem sneri upphaflega niður snýr nú upp. Og nú er það nákvæmlega eins og hann vildi að það yrði: Tætt og rifið, rétt eins og það hafi sprottið úr jörðinni sjálfri. Fólk sem sér þessi verk hans spyr hann líka stundum hvar hann hafi fundið þau.

Pabbi Jóhanns var listmálari og málaði landslagsmyndir. “Pabbi málaði fjöll”, sagði Jóhann eitt sinn. “Ég bý þau til”.

Hann fæddist í Reykjavík, fór í Verzlunarskólann og lærði síðan bæði byggingarlist og myndlist í Ameríku. Hann var kennari við Myndlista- og handíðaskólann í Reykjavík á sjöunda áratugnum. Árið 1969 varð hann prófessor í myndlist við háskóla í Flórída. Þar hefur hann búið og starfað síðan.