Það er mikil litagleði í myndum Jóhanns Briem. Margar þeirra eru líka heill heimur ævintýra. Hverjum öðrum hefði dottið í hug að mála rauðar og grænar kýr og bláa hesta? Eða rauð og appelsínugul börn, bláan Adam og hvíta Evu? Hann sagði sjálfur að birtan og litirnir skiptu miklu máli í myndum hans.
Jóhann fæddist að Stóra Núpi í Gnúpverjahreppi. Fyrstu kennslu í málaralistinni fékk hann þegar hann var fimmtán ára. Þá fór hann til Reykjavíkur og fékk tilsögn hjá Jóni Jónssyni málara, bróður Ásgríms. Árið 1929 fór hann til útlanda og stundaði nám í Dresden í Þýskalandi til 1934.
Hann sinnti ekki myndlistinni einvörðungu eftir að hann kom heim frá námi. Hann málaði á sumrin og stundaði kennslu á veturna. Meðal annars kenndi hann teikningu í 35 ár við Gagnfræðaskóla Vesturbæjar.

Ljósm.s. Rvk./Þjóðviljinn
Jóhann hélt sig alltaf við sama stílinn í list sinni og myndbyggingin í verkum hans var alltaf svipuð. Hann málaði aldrei abstraktmyndir og aldrei landslag. Í verkum hans var manneskjan oftast í fyrirrúmi. Það var þó ekki fólk með mótaða andlitssvipi heldur nokkurs konar skuggaverur – eða hulduverur. Stundum hafði hann eina veru í málverki, stundum fleiri. Oft snúa þær baki í áhorfandann.
Eins er um dýrin litríku, hesta, kýr eða kindur sem hann málaði með breiðum pensildráttum. Þau eru ekki nákvæmar eftirmyndir af dýrum heldur stór, afmörkuð form. En af hverju eru kýrnar grænar og hestarnir bláir? Kannski eru þetta álfakýr og hulduhestar.
Á efri göngum og á jarðhæð Laugarnesskólans í Reykjavík eru 22 málverk eftir Jóhann sem hann vann að á árunum 1944 til 1958. Þetta eru ævintýramyndir og myndir sem lýsa atvinnuháttum þjóðarinnar. Hann teiknaði líka myndir sem tengjast efni þjóðsagna.