ÍVAR VALGARÐSSON 1954

Ívar Valgarðsson myndlistarmaður vinnur nánast eins og rithöfundur. Í listsköpun hans skiptir hugmyndavinnan mestu máli. Þegar hann hefur fengið hugmynd að verki lætur hann fagmönnum eftir að útfæra hana. Hann segir að þeir kunni það betur en hann sjálfur. Hann hefur líka sýnt verk sem eru úr tilbúnum efniseiningum. Þá hefur hann málað verk beint á veggi og málað síðan yfir þau að sýningu lokinni.

Ívar var sextán ára þegar hann byrjaði í Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1971. Þar stundaði hann nám í fjögur ár. Honum þótti sérstaklega gaman að formfræði og nýstárlegum listhugmyndum. Á árunum 1977 til 1980 var hann í listaskóla í Haag í Hollandi og þá gafst honum færi á að skoða ýmsa nýja möguleika í myndlistinni.

Á fyrstu einkasýningu hans í Reykjavík árið 1980 voru verk hans samspil ljósmynda og málverka í nokkurs konar abstraktstíl. Á næstu árum vann hann höggmyndir úr steinsteypu og hann málaði á krossvið, spónaplötur og stál með olíulitum, vélalakki og bílalakki. Yfirleitt sýndi hann verk sem voru bæði á gólfi og veggjum.

Morgunblaðið/Árni Sæberg

Hann hefur alltaf haft rýmið – eða sýningarsalinn – í huga þegar hann hefur verið að leggja drög að sýningu og unnið eða valið verkin með hliðsjón af því hvernig heildarmyndin verði þegar þau eru öll komin þar saman.

Árið 1991 hélt Ívar sýningu á Kjarvalsstöðum sem vakti mikla athygli. Verkin voru í anda hugmyndalistarinnar. Þau voru ekki eiginleg sköpunarverk hans heldur fengin að láni í verslun og þangað var þeim skilað aftur að sýningu lokinni. Timburbúnt hölluðu sér upp að einum veggnum. Á öðrum stað héngu krossviðarplötur á vegg. Á einum stað á gólfinu voru 32 tíu lítra fötur með málningu og á öðrum stað voru 44 gangstéttarhellur.

Ívar vann þessa sýningu í samræmi við þá kenningu að í listaverkum ættu ekki að vera nein ummerki um handbragð listamannsins. Þannig mátti fingrafar ekki sjást á verkunum og engin ummerki um hnoð eða nudd. Meðan þessi verk voru í sýningarsalnum, slitin úr upprunalegu samhengi eða umhverfi, höfðu þau að mati hans fengið nýja merkingu.

Árið 1999 sýndi Ívar þrjú verk sem hann málaði með vaxlitum eins og börn nota oft við myndsköpun sína. Verkin voru nefnd eftir heitum litanna, “Vorgrænt”, “Himinblátt” og “Appelsínugult”. Hann tileinkaði sýninguna börnum “og því sem við hinir fullorðnu eigum sameiginlegt með þeim”, eins og hann sagði sjálfur.

Ívar lítur svo á að listamenn sem ná árangri eigi margt sameiginlegt með börnum. “Annars eru við öll börn inn við beinið og viljum vera frjáls og óheft að krota á veggina”, segir hann. “Við erum öll óvitar og byrjendur gagnvart sköpunarverkinu”.