HULDA HÁKON 1956

Ef þú sérð myndverk sem hangir uppi á vegg eins og málverk en er upphleypt, kannski úr gifsi eða viði sem hefur verið málaður eða úr öðrum efnum, og með skrifuðum texta þá er mjög sennilegt að það sé eftir Huldu Hákon. Svona myndir nefnast reyndar lágmyndir. Þær eru ekki ólíkar altarismyndum sem gerðar voru á Íslandi fyrr á öldum.

Textinn sem fylgir með segir hvert frásagnarefnið er. Reyndar kemur fyrir að hann segi ekki satt. Í mynd sem Hulda kallar “Sjálfsmynd með sjö draugum” sýnir hún sjálfa sig með draugum en þeir eru þó ekki sjö. Sjáðu bara myndina og teldu þá!

Hulda Hákon fæddist í Reykjavík, bjó um tíma í Keflavík, og var í sveit á sumrin eins og mörg börn þegar hún var að alast upp um 1960. Hún hefur teiknað frá því að hún man eftir sér. Þeir sem sáu myndirnar hennar á leikskólanum Barónsborg þóttust vissir um að hún yrði myndlistarmaður.
Í barnaskóla fékk hún alltaf tíu í teikningu.


Ljósm. Niillas A. Somby

Hulda sótti myndlistarnámskeið fyrir börn í Myndlista- og handíðaskólanum og lærði líka að teikna módel í Myndlistaskóla Reykjavíkur á unglingsárunum. Það kom þess vegna engum á óvart að hún fór í myndlistarnám þegar hún var orðin stúdent. Hún stundaði það í Reykjavík og New York á árunum 1977 til 1983.

Hulda er mikill dýravinur. Stundum hafa dýrin fengið að vera á myndunum hennar, hundar og kettir. Til dæmis var kötturinn Jósteinn, sem var malbiksgrár, í verki sem hún sýndi á Netinu. Þar kemur fram að hann veiddi þrettán rottur og sex starra meðan hann lifði. Hundurinn Heiða Berlín er á mynd með þremur myndarlegum listamönnum sem standa sperrtir úti í snjónum og kötturinn Krummi fékk af sér virðulegt portrett. Í texta sem fylgir með segir að hann hafi veitt fimmtán mýs og tvær rottur.

Hulda hefur alltaf farið sínar eigin leiðir í myndlistinni. Margar mynda hennar eru litríkar og kostulegar, einfaldar en samt tvíræðar. Í mynd sem hún nefnir “Höfði og Miðgarðsormurinn” er tilvísun í fund leiðtoga stórveldanna, Reagans og Gorbatsjovs, í Reykjavík 1986.

Húsið er sýnt eins og hrörlegur hjallur. Það er tákn fyrir heimsbyggðina sem reisa þarf við. Ormurinn hringar sig um húsið en bítur þó ekki í halann. Í norrænni goðafræði hringaði hann sig um jörðina og beit í halann ef friður ríkti.