HRINGUR JÓHANNESSON 1932 – 1996

Þegar Hringur Jóhannesson byrjaði í Handíða- og myndlistaskólanum í Reykjavík sextán ára gamall kom fljótlega í ljós að hann teiknaði flestum öðrum betur. Hann átti mjög auðvelt með að teikna hvað sem fyrir hann var lagt.

Hann átti heima fyrir norðan, í Aðaldal í Þingeyjarsýslu. Þar var hann á sumrin en á haustin kom hann í skólann með myndir sem hann hafði teiknað af ýmsu í sveitinni heima. Það gat verið jeppi í túninu eða verkfæri eða girðing eða far eftir skó í grasinu.

Þetta var í kringum 1950 þegar myndir í abstraktstíl voru í tísku. Það átti ekki við Hring að mála slíkar myndir. Hann var fyrst og fremst teiknari. Fremur en að gera það sama og allir aðrir til þess að geta talist hlutgengur í myndlistinni sneri hann sér að öðru að loknu þriggja ára námi. Sex árum síðar tók hann þráðinn upp aftur.

Það sem Hringur teiknaði sá hann oft frá óvenjulegu sjónarhorni. Hann málaði stór málverk af mjög venjulegum hlutum. Á einu málverki hans eru tvö bréf að detta inn um póstlúgu. Á öðru er hönd að taka í hurðarhún. Hann vandaði sig við hvert smáatriði. Það var einhver notaleg kyrrð yfir öllu sem hann gerði. Á skólaárunum í Reykjavík þurfti hann aldrei að fara langt í leit að myndefni. Kannski var það skakkur símastaur í götunni þar sem hann bjó. Kannski gömul hús sem honum þótti falleg.

Það er líka logn í öllum myndunum hans sem sýna náttúruna en þær málaði hann margar í Aðaldalnum. Það er heldur aldrei nein víðátta. Hann málaði myndir af hjólförum í grasi og líka af ýmsum hlutum sem hann kom auga á úti á túni, heyböggum, vírrúllu eða vatnsslöngum upp við bláan himin.

Í mörgum myndum hans eru skuggar og speglar. Oft bílspeglar. Í einni mynd málar hann það sem sést í bílspegli, landslagið fyrir aftan bílinn, og líka það sem hann sér þegar hann horfir fram á veginn. Í annarri horfir hann fram á veginn í gegnum bílrúðu. Það er rigning, fjöll framundan og rúðuþurrkan í gangi. Í bílspeglinum sjáum við bílstjórann og farþega.

Svona myndir málaði enginn íslenskur listamaður nema Hringur Jóhannesson.