HREINN FRIÐFINNSSON 1943

List Hreins Friðfinnssonar er hugmyndalist. Verk hans láta ekki mikið yfir sér. Það má segja að þau séu hógvær, skáldleg og heimspekileg. Sjálfur segir hann að hann reyni alltaf að leita að því sem er óvenjulegt í hinu venjulega.

Þegar Hreinn var lítill drengur í Miðdal í Dalasýslu þótti honum skemmtilegast af öllu að teikna. Hann reyndi að líkja eftir verkum íslenskra myndlistarmanna þegar hann sá myndir af þeim í blöðum en það voru í fyrstu aðallega landslagsmyndir en síðar abstraktmyndir.

Hann fylgdist líka af áhuga með því sem var skrifað í blöðin um myndlist. Honum þótti gaman að lesa um íslenska myndlistarmenn sem voru að sýna verk sín eftir að hafa verið við nám í útlöndum.

Hreinn var aðeins fimmtán ára þegar hann byrjaði í Handíða- og myndlistaskólanum í Reykjavík. Á sjötta áratugnum kynnti hann sér myndlist í lokkrum löndum, Englandi, Ítalíu, Frakklandi og Hollandi, en þar hefur hann búið og starfað frá 1971.


Morgunblaðið/Þorkell

Hann hefur unnið mikið með ljósmyndir, búið til myndaraðir og myndatvennur. Hann hefur líka notað gler í verkum sínum, járn, tré, tau og ýmis hversdagsleg efni.

Í hugmyndalistinni skiptir hugmynd að verki meira máli en verkið sjálft. Þannig er með ljósmyndatvennu sem hann nefnir “Að teikna tígrisdýr”. Á annarri myndinni er mynd af honum á barnsaldri heima í Miðdal að teikna tígridýr. Á hinni er mynd af honum þar sem hann er fullorðinn maður að gera það sama. Myndirnar fjalla ekki um augnablikin tvö þegar myndirnar eru teknar heldur um öll augnablikin – tímann – á milli þeirra eða lífshlaup hans.

Árið 1965 sýndi Hreinn hurð sem hafði verið brotin á þremur stöðum. Í kringum götin hafði hann málað frumlitina, rautt á einum stað, gult á öðrum og blátt á þeim þriðja. Þetta var á sýningu hóps sem kallaði sig SÚM en að honum stóðu ungir listamenn sem vildu fara nýjar leiðir í listsköpun. Þeir höfðu ekki áhuga á að mála landslagsmyndir og abstraktmyndir eins og allir höfðu gert.

Þetta listaverk Hreins, brotna hurðin, hét “Komið við hjá Jóni Gunnari”. Skoðanir á því voru skiptar. Sumir sáu ekkert listrænt við það, fannst það í rauninni út í hött. Aðrir voru hrifnir. En þannig var hugmyndalistin. Hún var uppreisn gegn öllu sem var venjulegt og hefðbundið. Myndlistin átti ekki bara að vera til að horfa á heldur líka til að hugsa um. Afstaða til hlutarins skipti meira máli en hluturinn sjálfur.