HÖRÐUR ÁGÚSTSSON 1922

Hörður Ágústsson vissi alveg þegar hann var ungur drengur hvað hann ætlaði sér að verða þegar hann yrði stór: Listmálari og arkitekt!

Hann varð líka listmálari. Og hann hefur unnið merkilegt starf á sviði íslenskrar byggingarlistar með rannsóknum sínum á íslenskri húsagerð á öldum áður og sem höfundur merkra fræðirita á því sviði.

Honum þótti gaman að teikna á bernskuárunum í Reykjavík. Og það var líka gaman að fá að fara með pabba á listsýningar í bænum. Hann fór í Menntaskólann og síðan í Myndlista- og handíðaskólann. Á þessum árum var stríð og ekki auðvelt að komast milli landa. Það var ein af ástæðum þess að hann fór ekki utan til náms í byggingarlist.

1972, Hörður Ágústsson heldur tvær sýningar

Ljósm.s. Rvk./Þjóðviljinn

En þegar stríðinu lauk fór Hörður til Kaupmannahafnar og síðan Parísar að læra myndlist. Hann var í París í fimm ár og leitaðist fyrst og fremst við að ná tökum á teikningunni. Honum fannst það grundvallaratriði áður en hann færi að fást við liti.
Hann þjálfaði sig með því að teikna myndir af fólki eins og tíðkaðist í listaskólum en það var að hans dómi í senn vandasamt og verðugt. Manneskjan, maðurinn og konan, voru að hans dómi fullkomnasta form veraldarinnar.

Á þessum tíma, á árunum í kringum 1950 og reyndar fram eftir sjötta áratugnum, var strangflatarlistin efst á baugi í París. Slíkar myndir byggðust á skýrt afmörkuðum formum, hreinni og sléttri áferð litanna og beinum línum. Hörður leiddi þessa listastefnu þó hjá sér á Parísarárunum. Hann málaði myndir úr íslenskum veruleika.

Það var ekki fyrr en hann var alkominn heim, 1952, að hann fór að mála abstraktmyndir eins og að ofan var lýst. Þegar hann sýndi þær ásamt öðrum í fyrsta sinn ráku margir upp stór augu. Er hægt að kalla þetta list? spurðu þá margir. Þetta eru málverk sem sýna ekki neitt sérstakt!

Hörður svaraði því til að í list nútímans skipti formið öllu máli og hugkvæmni í að fara með línur og liti. Formið þyrfti enga fyrirmynd. Það væri tilfinning listamannsins.

Í umræðu um abstraktmyndlist og tónlist hefur verið bent á að öll tónlist sé í eðli sínu abstrakt. Tónverk eða lag verður til í huga tónskáldsins. Í tónunum er engin saga sögð. Tónskáldið verður að þekkja öll hljóðfærin í hljómsveitinni til þess að skilja hvernig þau geta sem best hljómað saman í tónverki. Á sama hátt verður myndlistarmaðurinn að skilja og hafa tilfinningu fyrir því sem öllu máli skiptir í málverkinu… forminu og litunum.

Síðar urðu abstraktmyndir Harðar ljóðrænni, hann þróaði list sína, rannsakaði form og fleti og gerði meðal annars margs konar grafíkmyndir og myndir með lituðum límböndum á hvítt harðplast.