Á æskuárum Helga Þorgils Friðjónssonar heima í Búðardal var stundum haft á orði að hann gæti orðið prestur af því að hann var svo skáldlegur í tilsvörum. Hann varð reyndar ekki prestur. Hann varð myndlistarmaður – en það er alveg óhætt að segja að í myndum hans sé heilmikill skáldskapur.
Í málverkum hans frá síðustu árum eru hvítleitar verur í íslensku landslagi. Þetta eru yfirleitt allsberir karlar. Kannski eru þetta englar. Kannski goð. Stundum sjást líka konur og oft eru líka fuglar og fiskar og önnur dýr. Sum mætti kalla mannhesta. Stundum eru mennirnir líka á sveimi með horn og vængi. Og það eru líka börn. Þau eru alveg eins og lítið, fullorðið fólk.
Stundum situr fólkið. Stundum stendur það úti í náttúrunni og það á það líka til að hanga í lausu lofti eða svífa. Það er aldrei neitt samband á milli þessara vera. Hver og ein virðist vera í sínum eigin heimi, niðursokkin í eigin hugsanir. Það er þögn og mikill friður yfir öllu. Og einsemd. En það er einmitt það sem Helgi er að segja í þessum ævintýralega skáldskap sínum. Myndirnar sýna einsemd mannsins.

Morgunblaðið/Jim Smart
Helgi byrjaði snemma að teikna. Hann samdi sögur og teiknaði myndir við þær. Um fermingaraldur hafði hann samið margar teiknimyndasögur. Þá var hann líka farinn að mála myndir.
Hann stundaði myndlistarnám í Reykjavík og í Hollandi. Þegar hann var farinn að starfa heima að loknu námi upp úr 1980 voru tímamót í íslenskri myndlist. Margir myndlistarmenn voru að snúa sér að málaralist eftir langt tímabil hugmyndalistar sem leiddi hjá sér liti og léreft. Það voru nýir straumar í myndlistinni.
Málverk Helga og annarra listamanna sem komu fram um þetta leyti voru kölluð “nýja málverkið”.