GUNNLAUGUR SCHEVING 1904 – 1972

Gunnlaugur Scheving málaði ekki fjöll þó að honum þættu þau falleg. Í myndum hans er oftast fólk sem er að vinna.

Í mörgum mynda hans eru stórir og kraftalegir menn að draga fisk úr sjó. Hann sagði sjálfur að í baráttunni við náttúruöflin væri maðurinn alltaf stór.

Hann málaði líka margar myndir af lífinu í sveitinni. Þær eru flestar stórar og litríkar. Stundum er bændafólkið að hvíla sig úti á engjum í sumarsólinni. Stundum er verið að mjólka. Þarna er kýrin, hundurinn eða kötturinn á bænum og kannski fugl á þúfu.

Í myndunum af sjónum eru stórir fletir. Stundum eru þeir á ská. Með því vildi hann sýna að mennirnir væru á hreyfingu við vinnu sína í bátnum. Hann vildi líka sýna að starf þeirra væri ekki hættulaust. Í myndunum úr sveitinni er aftur á móti kyrrð og ró.

Hann málaði líka margar myndir í Reykjavík og í Grindavík. Í Grindvík málaði hann myndir af fólkinu og lífinu í þorpinu, húsin og göturnar, fiskinn á bryggjunni og bátana á sjónum úti fyrir.

Gunnlaugur vandaði sig alltaf mikið þegar hann var að vinna að myndunum sínum. Hann gerði margar vinnuteikningar af hverju verki áður en hann byrjaði á því.

“Blýanturinn var fyrsta verkfærið sem ég þekkti”, sagði hann eitt sinn. “Hann var mitt uppáhald”.