GUÐMUNDA ANDRÉSDÓTTIR 1922 – 2002

Guðmunda Andrésdóttir málaði alltaf abstraktmálverk.

Hún hafði mikinn áhuga á málaralist á yngri árum, dundaði við myndlist í frístundum, eins og hún hún orðaði það sjálf og sótti myndlistarsýningar. Áhuginn vaknaði þó ekki fyrir alvöru fyrr en hún sá málverk á sýningu sem Svavar Guðnason hélt í Reykjavík 1945. Á þessari sýningu voru eingöngu abstraktmyndir. Hún hreifst af þessum myndum af því að henni fannst svo mikill kraftur í þeim og svo var meðferð litanna líka einstök.

Hún hafði á þessum tíma lokið prófi úr Verzlunarskólanum en nú langaði hana til að fara í listaskóla. Á þessum árum var óvenjulegt að ungar konur færu utan til myndlistarnáms en hún vissi alveg hvað hún vildi. Fyrst var hún í Stokkhólmi og síðan í París.

Guðmunda Andrésdóttir

Ljósm.s. Rvk./Þjóðviljinn

Það var líka óvenjulegt að konur máluðu abstraktmálverk. Þegar Guðmunda kom aftur heim 1953 málaði hún þannig verk af fullum krafti. Í þeim voru ferningar og þríhyrningar, mjög skýrt afmarkaðir á myndfletinum. Hún sagði síðar sjálf að það hefði ekki einu sinni skipt máli hvernig myndirnar sneru.

En svo hurfu ferningarnir og þríhyrningarnir úr myndunum og í staðinn komu hlykkjóttar línur og hringform.

Guðmunda málaði sömu formin oft aftur og aftur. Hún stillti þeim upp á mismunandi vegu. Hún kallaði það rannsóknarvinnu. Hún var alltaf að rannsaka formið, hreyfingu og liti.