Gerður Helgadóttir fæddist í Neskaupstað og þar átti hún heima í húsi sem kallaðist Tröllanes þar til hún var níu ára. Hún lék sér oft með steina niðri í fjöru og raðaði þeim upp í myndir. Hún hafði gaman af að teikna myndir alveg eins og mamma hennar sem málaði svolítið. Pabbi hennar var aftur á móti gott tónskáld. Það var mikið spilað og sungið í Tröllanesi. Þegar hún var níu ára fluttist fjölskyldan suður.
Sýning sem hún sá á verkum nemenda í Handíðaskólanum í Reykjavík skipti sköpum í lífi hennar. Þá var hún sautján ára. Hún hafði ekki gert sér grein fyrir því að hún gæti átt þess kost að læra myndlist. Nú vaknaði áhuginn á því.
Gerður fór í Handíðaskólann og var í honum í tvö ár. Þá áttaði hún sig á því að það átti betur við hana að “módelera” eða móta myndir en að teikna og mála. Myndmótun var ekki kennd í skólanum en hún fór engu að síður að móta myndir af miklu kappi samhliða teiknináminu. Hún mótaði myndirnar í leir og fékkst í fyrstu við hausa. Sá fyrsti var af pabba hennar. Hún fékk líka að höggva mynd í grjót í fjörunni í Laugarnesinu hjá Sigurjóni Ólafssyni, myndhöggvara.
Til þess að læra höggmyndalist þurfti hún að fara til útlanda. Hún sigldi til Ítalíu árið 1948 með skipi sem flutti fisk. Hún var tvö ár í listaskóla í Flórens, sem er mikil listaborg. Síðan lá leiðin til Frakklands. Þar var hún önnur tvö ár í París.
Að loknu náminu í París settist Gerður að í Frakklandi og reyndi að puða ein eins og hún orðaði það sjálf. Á námsárunum hafði hún unnið hlutbundnar myndir en það eru myndir af þekkjanlegum fyrirmyndum. Nú fór hún að búa til abstraktmyndir. Það voru myndir sem hún byggði eingöngu á formum. Þær voru úr málmþynnum og vírum sem hún bræddi saman með logsuðutæki. Í hvert verk þurfti margar þynnur. Hún sneið þær til, tengdi þær svo saman með þráðum úr bronsi og kopar og málaði allt svart að lokum.
Gerður lærði að búa til glugga úr steindu eða lituðu gleri. Hún bjó til steinda glugga sem eru meðal annars í Skálholtskirkju, Hallgrímskirkju í Saurbæ og Kópavogskirkju.
Hún bjó til stórar steinfellur eða mósaíkmyndir sem prýða húsveggi víða í Frakklandi, Þýskalandi og í Reykjavík, meðal annars stóra slíka mynd á Tollstöðina í Reykjavík.
Það var eitt af síðustu verkum hennar. Hún gerði líka lágmyndir úr bronsi sem eru á vegg í hátíðarsal Menntaskólans við Hamrahlíð.
Listasafn Kópavogs ber nafn Gerðar Helgadóttur og heitir Gerðarsafn.