Georg Guðni málar landslagsmyndir. Þó ekki fjöll eða landslag uppi á heiðum sem við þekkjum. Í myndunum hans er ekkert sérstakt fjall því að hann málar ekki eftirmyndir af náttúrunni. Það er form sem fer á léreftið. “Þetta eru stærstu formin í náttúrunni”, segir hann. “Svo er þetta auðvitað jörðin”.
Þetta byrjaði allt þegar hann var í Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Hann var þar við nám á árunum 1980 til 1985. Einn daginn leit hann út um gluggann. Esjan varð fyrir augum hans og hann fór að mála hana á striga. Honum fannst það mjög skemmtilegt en skólafélagarnir botnuðu ekkert í honum. Á þeim tíma datt engum þeirra í hug að mála myndir af landslagi. Fjöll voru ekki í tísku.

Morgunblaðið/Kristinn
Í myndum Georgs Guðna eru næstum öll afbrigði af birtu nema kannski glaðasólskin – enda segist hann heillast af leiðindaveðri. Hann notar fáa liti. Það eru engar skýrar línur þar sem landið og himinninn mætast. Fjöllin eða dalirnar eða heiðarnar eru afmörkuð með mismunandi litatónum með hliðsjón af birtunni og veðrinu.
Þó að verkin séu einföld er hann lengi að mála hverja mynd. Hann segist fálma sig áfram á striganum meðan hann er að reyna að ná tökum á viðfangsefninu. Kannski byrjar mynd sem fjall en endar sem dalur. Svona þróast birtan líka. Fyrst er kannski dimmt yfir en svo birtir. Hann reynir að laða fram tilfinningu fyrir hvoru tveggja. Það er aldrei sól í myndunum hans. Aldrei skærir litir.
Áður en Georg Guðni byrjar að mála mynd hefur hann gert skissur eða rissað á blað eitthvað sem hann hefur séð og langar til að hafa í málverki. Hann ferðast oft um landið, horfir á það og teiknar útlínur á blað. Svo vinnur hann úr þessu þegar hann er kominn heim. Kannski löngu seinna. Hann lítur á skissurnar og rifjar upp í huganum um leið það sem hann sá. Og málar.
Í myndunum hans er aldrei fólk, aldrei dýr og aldrei hús. Hann leyfir engu að vera með sem honum finnst vera fyrir. Hann hefur einu sinni málað mynd af manneskju. Þá málaði hann mynd af sjálfum sér. Það gerði hann á sama hátt og þegar hann málar fjöll: Hann horfði góða stund á sjálfan sig í spegli á baðinu. Svo hljóp hann að málaratrönunum og reyndi að rifja upp það sem hann hafði séð. Og málaði.