FINNUR JÓNSSON 1892 – 1993

Þegar Finnur Jónsson var að alast upp tók hann til hendi við margvísleg störf til sjós og lands eins og venjan var með börn og unglinga í kringum aldamótin 1900. Þrettán ára var hann matsveinn á skútu og nokkrum árum síðar formaður á árabát. Hann stundaði líka járnsmíðar og var laginn við vélar. Hann átti heima við Hamarsfjörð sem er syðsti fjörður Austfjarða.

En honum þótti líka gaman að teikna. Þegar hann var lítill strákur teiknaði hann oft í svell þegar snjór lá yfir. Það var dökkt og það komu hvítar rákir þegar teiknað var í það. Árið 1915 flutti hann til Reykjavíkur og lærði gullsmíði. Hann fékk líka tilsögn í teikningu því að hugur hans hneigðist æ meira til þess að læra málaralist.

Finnur var orðinn 27 ára þegar hann lét þann draum sinn rætast. Hann fór til Kaupmannahafnar til náms og síðan til Dresden og Berlínar í Þýskalandi. Þar kynntist hann nýjum listastefnum og straumum í myndlistinni sem flestir Íslendingar vissu þá lítið um.

1971, Finnur Jónsson sýnir í Skipholti 1

Ljósm.s. Rvk./Þjóðviljinn

Það kom líka á daginn þegar hann sýndi fyrst myndirnar sínar í Reykjavík 1925 að mörgum þótti sumar þeirra skrýtnar. Þær voru að minnsta kosti öðruvísi en áður hafði sést. Þetta voru abstraktmyndir með táknrænu ívafi.

Þeir sem sögðu að listmálarar ættu að líkja eftir því sem þeir væru að mála voru ekki hrifnir. Það var skrifað um þessar myndir í blöðin og deilt um það hvort þær væru merkilegar eða ekki. Hvort kalla ætti þetta list eða ekki. Það þótti Finni leitt. Hann tók abstraktmyndirnar sínar niður og fór með þær aftur heim.

Eftir þetta málaði hann myndir úr lífi sjómanna sem hann þekkti vel af eigin raun og af náttúru landsins. Hann málaði líka fugla- og dýralífsmyndir sem þykja sérstæðar í íslenskri list. Í byrjun sjöunda áratugarins fór hann svo á ný að mála abstraktmyndir.

Finnur Jónsson lifði heila öld og einu ári betur. Abstraktmyndir hans sem vöktu undrun margra 1925 hafa nú mikið gildi í íslenskri listasögu.