EYBORG GUÐMUNDSDÓTTIR 1924 – 1977

Eyborg Guðmundsdóttir málaði op-myndir. Hún var ein af fyrstu Íslendingum sem það gerðu.

Orðið op er dregið af enska orðinu optical sem merkir sjón. Málverk í op-stíl platar augað. Það er eins og formin og munstrin í því séu öll á iði þegar horft er á það. Ef þú horfir á svona málverk og færir þig til fyrir framan það breytist það.

Eyborg fæddist í Reykjavík en ólst upp við Ingólfsfjörð í Strandasýslu. Hún byrjaði ekki að mála fyrr en hún var komin á fertugsaldur. Það var á sjötta áratugnum. Hún málaði abstraktmyndir eins og margir myndlistarmenn á þeim tíma.

Hana langaði að fara í listaskóla í Frakklandi. Þess vegna fór hún að læra frönsku og spænsku í Háskólanum. Svo fór hún til Parísar. Þar kynntist hún ungverskum listamanni sem hét Victor Vasarely – en það var hann sem byrjaði að mála myndir í op-stíl. Hann tók að sér að kenna henni. Hún fór þó ekki eftir öllu sem hann sagði því að hún var mjög sjálfstæð og vissi alltaf hvað hún vildi sjálf. Vinir hennar sögðu að hún hefði verið hressileg vaskleikakona.

Hvítt og svart var aðaluppistaðan í verkum Eyborgar en stundum bættist þriðji liturinn við eins og til áherslu. Hún málaði oft lóðréttar og láréttar línur sem gátu til dæmis myndað svart form á hvítum grunni. Hún málaði á striga og gler, hannaði bókakápur og gerði myndverk úr járni og viði.

Hún sagði eitt sinn að allt sem listamenn hefðu þörf fyrir að gera ætti rétt á sér. Það skipti engu máli hver listastefnan væri.

“Í mínum augum er allt merkilegt sem er gert vel og af einlægni”, sagði Eyborg. “Aðalatriðið er að verkin spretti af innri þörf”.