EIRÍKUR SMITH 1925

Fyrstu ár ævinnar átti Eiríkur Smith heima við Straumsvík sem er skammt fyrir utan Hafnarfjörð. Þá var ekkert álver þar eins og nú. Bara hraunið allt um kring og sjórinn. Rétt fyrir innan var svo Hafnarfjörður en þangað flutti hann þegar hann var fimm ára – og þar hefur hann átt heima upp frá því.

Eiríkur var alltaf að teikna þegar hann var lítill. Hvert sem hann fór hafði hann með sér stílabók til að krota í. Teiknikennararnir í Barnaskóla Hafnarfjarðar hrósuðu honum mikið. Í skólastofunni hans voru margar myndir eftir hann á veggjunum. Hann átti líka eftir að verða listmálari.

Hann var í listaskólum í Reykjavík og Kaupmannahöfn og París og málaði abstraktmyndir þegar hann kom heim upp úr 1950. Þessi verk voru byggð á formum og flötum í hreinum litum. Svo breyttist stíllinn og formin urðu frjálslegri.

Upp úr 1960 voru málverkin hans yfirleitt stór og kraftmikil, máluð með breiðum penslum eða spöðum. Þá var hann að túlka þau áhrif sem náttúran hafði á hann.
Hann hefur sagt að landslagið hafi alltaf höfðað mikið til sín og þá öðru fremur gróft og hrjóstrugt landslag – eins og hraunið á Reykjanesskaganum.

Listferill Eiríks er mjög fjölbreyttur. Hann gerði tilraunir með ýmsa þætti abstraktlistar, meðal annars slettumyndir. Á áttunda áratugnum málaði hann myndir af fólki og landslagi af mikilli nákvæmni. Þar kom vel í ljós hvað hann er frábær teiknari.