EINAR JÓNSSON 1874 – 1954

Hefurðu tekið eftir styttu af manni sem stendur á háum stalli á Austurvelli í Reykjavík beint á móti Alþingishúsinu? Veistu hvaða maður það er – og veistu hver bjó styttuna til?

Maðurinn sem styttan er af er Jón Sigurðsson. Hann átti einna mestan þátt í því að Íslendingar urðu sjálfstæð þjóð. Hann fæddist 17. júní. Það er þjóðhátíðardagurinn okkar eins og þú veist áreiðanlega. Maðurinn sem bjó styttuna af honum til var Einar Jónsson.

Þegar Einar var lítill heima á Galtafelli í Hrunamannahreppi var hann alltaf að teikna eftir myndum sem hann sá í blöðum og skera út í tré. Hann sá líka oft fyrir sér það sem enginn annar sá. Hann sá skrýtnar verur í veggjahleðslum og hann bjó til ævintýraheim í huganum þegar hann var að horfa á rákir og æðar í baðstofusúðinni. Stundum teiknaði hann það sem hann hafði séð fyrir sér.


Ljósm.s.Rvk./
Magnús Ólafsson

Hann vissi snemma hvað hann langaði mest af öllu til að verða. Myndhöggvari!
Fólkið horfði á hann og var hissa þegar hann sagði frá þessu. Hvernig ætlarðu að lifa á því að búa til myndir úr steini? var spurt og það var ekki skrýtið því að um aldamótin 1900 hafði engum Íslendingi dottið annað eins í hug.

En Einar ætlaði sér að láta drauma sína rætast. Og það gerði hann líka. Hann sigldi til Kaupmannahafnar 1893 og fór í listaskóla. Hann fór líka til annarra landa til að skoða verk annarra myndhöggvara. Hann var í tuttugu ár í útlöndum við nám og starf
sem myndlistarmaður.

Einar var þeirrar skoðunar að listin ætti ekki að vera eftirlíking af neinu heldur ætti listamaðurinn að skapa eitthvað sem væri nýtt. Hann vildi fara aðrar leiðir en dansk-íslenski myndhöggvarinn Bertel Thorvaldsen og aðrir þeir listamenn sem unnu verk sín eftir klassískri hefð og litu til listsköpunar Rómverja og Grikkja til forna. Árið 1910 kynntist hann hugmyndum guðspekinnar og sótti myndefni í þær, meðal annars um upprisu sálarinnar, og túlkaði þær með táknum og líkingum í verkum sínum.

Myndin af Jóni Sigurðssyni er eitt af mörgum listaverkum Einars í Reykjavík. Styttan af Ingólfi Arnarsyni á Arnarhóli er líka eftir hann, Útlagar við Hringbrautina, Úr álögum niðri við Tjörn og Jónas Hallgrímsson í Hljómskálagarðinum svo nokkur verka hans séu nefnd.

Ef þú kemur upp á Skólavörðuholtið og stendur frammi fyrir Hallgrímskirkju og lítur til hægri þá sérðu hús sem er eins og kastali. Þetta er Listasafn Einars Jónssonar. Þarna átti hann heima og þarna var vinnustofan hans. Í húsinu og í garðinum við það eru mörg verka hans sýnd.