Ásmundur Sveinsson var myndhöggvari. Hann vann myndir sínar í stein, tré, málm og gler.
Hann fæddist og ólst upp vestur í Dölum. Þegar hann var lítill strákur að smala vissi hann vel að hann ætti ekki eftir að verða dugmikill bóndi. Hann sagði sjálfur að hann hefði verið mesti rati – eða klaufi – að smala. Hann sá ekki vel frá sér og hann var heldur ekki glöggur á skepnur. Aftur á móti þótti honum gaman að dunda sér við smíðar.
Hann bjó til marga hluti úr málmi og tré þegar hann var lítill. Hann bjó til höggmyndir og átti sér þann draum að verða myndhöggvari en þorði aldrei að segja frá því. Hann var viss um að þá yrði hlegið að sér.
Þegar Ásmundur var tuttugu og tveggja ára fór hann til Reykjavíkur. Hann lærði tréskurð og teikningu en árið 1919 sigldi hann til Kaupmannahafnar til að læra meira. Hann var líka í Svíþjóð og París við listnám og störf.
Ljósm.s. Rvk./Þjóðviljinn
Á árunum 1930 til 1940 bjó hann til myndir af alþýðufólki við störf sín. Þessi ár voru kölluð kreppuárin af því að þá var bæði atvinnuleysi og fátækt í landinu. Ekki voru allir jafn hrifnir af þessum myndum af því að þær sýndu fólkið ekki alveg eins og það var. Þarna voru áberandi feitar og ólögulegar konur og tröllvaxnir karlar.
En svona sá Ásmundur fyrir sér fólkið sem vann erfið störf. Svona var það í hans huga – Vatnsberinn, Járnsmiðurinn og Þvottakonur svo nokkur verk hans séu nefnd. Í hans augum var þetta fólk hetjur í daglegu striti sínu.
Árið 1942 byrjaði hann að byggja hús í Laugardalnum sem varð heimili hans og vinnustofa. Nú er þar listasafn sem er helgað verkum hans. Það heitir Ásmundarsafn. Húsið er eins og arabískt kúluhús og egypskur píramídi.
Í garðinum eru líka mörg verk eftir hann, bæði stór og smá. Þar er til dæmis stórt verk sem sýnir riddara á hesti. Það heitir Helreiðin. Myndefnið sótti hann í íslenska þjóðtrú. Ásmundur sá þetta verk fyrir sér á veginum fyrir ofan Ártúnsbrekkuna í Reykjavík. Það átti að vera svo risastórt að bílarnir gætu keyrt undir hestinn á leið til og frá Reykjavík.
Ásmundur var alla tíð þeirrar skoðunar að ekki ætti að loka höggmyndir inni á söfnum. Þær ættu að vera úti á strætum og gatnamótum þar sem þær væru fyrir allra augum.