ÁSGRÍMUR JÓNSSON 1876-1958

Þegar Ásgrímur Jónsson var lítill strákur í Rútsstaðahjáleigu í Flóa var margt öðruvísi en nú er. Þá var fátt til af því sem okkur þykir sjálfsagt nú. Þá voru engir bílar. Ekkert rafmagn. Enginn hiti í ofnum. Ekkert vatn sem rann úr krana. Það var fátækt. Mikil fátækt.

Einu sinni sat hann úti á túni með sendibréf í höndunum. Hann var ekki að lesa bréfið því að hann þekkti ekki einu sinni stafina. Hann var að horfa á blekið. Það var svo fallega heiðblátt. Hann leit upp og horfði á Eyjafjallajökul sem blasti við í austri. Hann var líka svona heiðblár. Og svo horfði hann aftur á blekið. Já, þetta var nákvæmlega sami heiðblái liturinn!

Hann var ekki nema þriggja ára þennan sumardag úti á túni. En svona var hann næmur. Honum þótti svo gaman að horfa á fjöllin og jökulinn. Litirnir gátu verið svo fallegir. Hann horfði líka upp í himininn sem var stundum blár og stundum grár og stundum voru ský sem voru alltaf að koma og fara og breyta um lit og lögun.

Hann var alltaf að skoða eitthvað sem öðrum þótti ekkert merkilegt. Þá var hann oft dálítið utan við sig. Þegar hann kom á bæi þótti sumum hann öðruvísi en önnur börn á hans aldri. Honum þótti líka gaman að íslenskum þjóðsögum og ævintýrum. Það voru engar myndir með því sem hann las – en hann sá allt fyrir sér í myndum.

Og hann teiknaði. Stundum var honum gefinn pappír sem hann gat teiknað á. Þá var gaman að vera til. Annars bjó hann til myndir úr einhverju sem var hendi næst úti, til dæmis úr grjóti, leir og mosa. Hann skar líka út úr ýsubeinum sem hann fékk hjá pabba sínum og úr fleiri hlutum. Pabbi hans stundaði sjóróðra á áraskipi síðustu vetrarmánuðina jafnhliða búskapnum.

Engum datt í hug að þessi strákur ætti eftir að verða listmálari. Ekki einu sinni honum sjálfum þó að hann hugsaði stundum um að það gæti verið gaman að gera ekkert annað en að mála myndir þegar hann yrði stór. Á þessum tíma hafði enginn Íslendingur slíkt að atvinnu. Fólk hafði bara séð útlendinga mála myndir. Mörgum þótti það ekki sérlega merkileg vinna á þessum tíma.

En það fór þó svo að hann varð listmálari. Hann fór til Kaupmannahafnar þegar hann var rúmlega tvítugur og lærði að mála myndir. Hann var níu vetur í útlöndum en kom oft heim á sumrin og þá málaði hann myndir af landinu.

Hann reyndi alltaf að sýna birtuna og litina í náttúrunni sem gátu verið svo tærir. Hann var oft á Þingvöllum og á Húsafelli að mála. Stundum málaði hann með vatnslitum. Stundum með olíulitum. Hann málaði margar myndir af Heklu og eldgosum. Hann sá Heklu gjósa þegar hann var tveggja ára og mundi alla ævi eftir eldglæringunum. Hann teiknaði líka og málaði margar myndir sem tengjast efni íslenskra þjóðsagna og ævintýra.

Ásgrímur Jónsson var fyrsti íslenski listamaðurinn sem starfaði eingöngu við að mála myndir.