ÁSGERÐUR BÚADÓTTIR 1920

Ásgerður Búadóttir lærði að mála og teikna hér heima og í Kaupmannahöfn á árunum milli 1940 og 1950. Á námsárum sínum í Kaupmannahöfn sá hún listvefnað í fyrsta sinn, verk sem voru ofin úr ull í vefstól. Áhugi hennar á þessu listformi vaknaði og hún keypti sér vefstól ytra og flutti hann með sér heim.

Hjá okkur Íslendingum er listin að vefa miklu eldri en listin að mála. Hér bjó fólk í torfbæjum á öldum áður, það voru engir steinveggir og ekki hægt að mála á torfið. Hins vegar hefur alltaf verið til nóg af ull í landinu og það var hægur vandi áður fyrr að lita hana með fallegum jurtalitum.

Ásgerður hafði ekki lært listina að vefa en byrjaði að fikra sig áfram. Hún sótti námskeið en mest lærði hún af sjálfri sér. Vefjarlistin er erfitt listform. Hún hefur sjálf sagt að hún hafi lært með því að vinna og vinna og gráta yfir mistökunum, lesa sér til og halda svo áfram að vinna. Um síðir náði hún fullkomnu valdi á þeirri tækni sem það krefst.

Við vefstólinn gilda önnur lögmál en í málaralistinni en listnámið sem Ásgerður átti að baki var góður grunnur að byggja á.

Árið 1956 hlaut hún gullverðlaun á alþjóðlegri lista- og handverkssýningu í München í Þýskalandi fyrir veggklæði sem nefndist “Stúlka með fugl”. Það var mikill heiður. Verðlaunin vöktu athygli á list hennar og hvöttu hana til að halda áfram á þessari braut.

Í þessu verðlaunaverki voru þekkjanlegar verur og hlutir. Þannig “fígúratíf” verk óf hún í fyrstu en svo fór hún að vefa verk í abstraktstíl, byggð á línum, litum og formum. Um miðjan sjöunda áratuginn fór hún svo að hnýta óspunnið hrosshár í vefinn. Það gefur verkum hennar alveg sérstaka áferð og dýpt.

Vefjarlistaverk Ásgerðar eru stór og tilkomumikil. Hún fer sparlega með litina. Stundum notar hún bara tvo eða þrjá aðalliti. Í mörgum verkum hennar má sjá áhrif frá íslenskri náttúru.

Undirbúningsvinna fyrir hvert verk getur tekið langan tíma. Hún gerir alltaf teikningu í fullri stærð áður en hún byrjar að vefa og segist eiginlega aldrei víkja út frá henni. Vefstóllinn er láréttur og hún sér aldrei meira en svo sem 30 sentímetra af vefnum í einu. Hún verður þess vegna að reyna að sjá heildina fyrir sér í huganum og vona að hún hitti á réttu litina.

Ef hún væri að mála málverk og væri ekki ánægð með litina eða annað gæti hún auðveldlega málað yfir það sem henni líkaði ekki og byrjað aftur – en slíkt er auðvitað ekki hægt í vefjarlistinni.

Listsköpun Ásgerðar Búadóttur er byggð á víðtækri þekkingu hennar á myndlistinni og góðri tilfinningu hennar fyrir efni, litum og formi. Fyrir henni er ullin það efni og sá miðill sem olíulitir eru málaranum eða steinninn myndhöggvaranum.